144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sinni því hlutverki formanns nefndarinnar að fylgjast með umræðunni og inna eftir því með hvaða hætti nefndin geti frekar betrumbætt frumvörpin. Ég teldi mikilvægt að 1. gr. frumvarpsins yrði þroskuð áfram á þann veg að ekki yrði um skilyrðislausa og ótakmarkaða heimild ráðherra til að ákveða staðsetningu ríkisstofnana heldur væri bætt þar við einhverju ferli. Ég gæti séð fyrir mér að skilyrða þyrfti það til dæmis að slíkur flutningur gæti ekki orðið fyrr en í það minnsta fjórum árum síðar eða eitthvað slíkt og hann mundi þar af leiðandi gerast í áföngum. Jafnframt væri hægt að sjá fyrir sér að lögð yrði fram þingsályktunartillaga um beitingu þeirrar heimildar, þannig að það fengi þinglega meðferð að flytja. Það þyrfti að hafa farið fram hagkvæmniúttekt og kostnaðargreining þannig að málið yrði í fyrsta lagi unnið fyrir opnum tjöldum, það kæmi til þingsins og svo fengju starfsmenn fjögur ár til að laga sig að þessum staðreyndum. Ég held að þetta sé algjör lágmarkskrafa.

Það getur ekki verið til farsældar fallið, og Fiskistofa er svo hrikalegt viðvörunarljós að sú stofnun var flutt til Hafnarfjarðar af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2003 í kjördæmapólitískum tilgangi, og svo aftur finnst mönnum í lagi að skáka henni núna til Akureyrar tólf árum seinna. Eins og ég sagði áðan, ef þjóðin verður svo óheppin að þeir flokkar verði aftur í ríkisstjórn 2027, hvert verður hún send þá? Og 2039? Er þetta þannig á tólf ára fresti eða jafnvel skemmri fresti telji menn sér bara heimilt að skáka fólki svona til án efnislegs rökstuðnings, án kostnaðargreiningar, án nokkurs, sömu stjórnarflokkar? Ég teldi mjög mikilvægt að byggja þverpólitíska samstöðu um svona flutning þannig að ný ríkisstjórn verði líka skuldbundin því að viðhalda stofnuninni á þessum stað. Þá gætu (Forseti hringir.) þau sveitarfélög sem tækju á móti slíkri stofnun raunverulega búist við að hún væri komin til að vera, byggt upp umgjörð í kringum hana, gert fólki kleift að flytja með góðum og skilvirkum hætti, (Forseti hringir.) séð því fyrir skólaplássi, dagvistarþjónustu og öllu öðru slíku.