144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir mjög góðar spurningar sem snúa að mikilvægum lið í slíkri áætlun sem er tekjuöflun og skattar. Varðandi virðisaukaskattskerfið þá er framtíðarsýn þessarar ríkisstjórnar eitt þrep. Skref var stigið í síðustu fjárlögum í þá átt að þrengja á milli þrepa vegna þess að óæskilegir hvatar skapast þegar of langt er á milli þrepa. Það er ágæt skýrsla frá OECD sem styður það.

Varðandi félagsleg markmið þá hefur það verið gagnrýnt þegar virðisaukaskattskerfið er notað að þá er verið að gata það. Ég vil horfa til skattkerfis, þegar við horfum til félagslegra markmiða og þess að styðja við þriðja geirann á allan hátt, og veita undanþágur í því í samræmi við það sem við þekkjum hjá öðrum þjóðum.