144. löggjafarþing — 121. fundur,  7. júní 2015.

gjaldeyrismál.

785. mál
[22:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Eins og fram kom hér áðan hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni þá rekur þetta mál sig í reynd aftur til þess að reglur um fjármagnshöft, sem Seðlabankinn hafði áður heimild til að setja á grundvelli laga um gjaldeyrismál, voru færðar inn í lög á árinu 2011. Það þótti traustara að byggja fjármagnshöftin á lögum en ekki einföldum reglum. Það leiddi til þess að Alþingi hefur síðan ítrekað þurft að koma að því að uppfæra þessi lagaákvæði, styrkja þau eða reyna að koma í veg fyrir mögulegar sniðgönguleiðir. Þetta frumvarp er af þeim toga. Það felur í reynd í sér fyrirbyggjandi aðgerðir til að loka raunverulegum eða hugsanlegum — ég get næstum sagt fræðilegum leiðum sem einhverjir kynnu að reyna að nýta sér eða eru jafnvel að undirbúa að nýta sér í þessum töluðum orðum fyrir fram.

Veigamesta breytingin sem Alþingi gerði á lögunum frá 2011 var að sjálfsögðu nefnd lagasetning aðfaranótt 12. mars 2012. Það má halda því fram með gildum rökum að það sé næstmikilvægasta lagasetningin á Íslandi frá hruni bak neyðarlögunum sjálfum. Í því frumvarpi var tvennt. Það var annars vegar mjög hliðstætt ákvæði því sem hér er verið að færa í lög af ýmsum toga, að koma í veg fyrir og loka sniðgönguleið sem þá var augljóst að menn voru farnir að nýta sér, þ.e. þeir keyptu upp húsbréf rétt áður en þau komu á gjalddaga og uppgreiðslan var síðan undanþegin gjaldeyrishöftum eða fjármagnshöftum eins og aðrar sambærilegar afborganir og greiðslur af gildum skuldbindingum. En hitt sem var í lögunum var miklu mun stærra og þýðingarmeira, þ.e. að færa eignir föllnu bankanna og föllnu fjármálafyrirtækjanna inn fyrir gjaldeyrishöftin en þau höfðu verið undanþegin fram að því. Það er í reynd síðan forsenda alls sem unnið hefur verið í sambandi við greiningu á stöðu búanna, greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins samfara slitum þeirra eða uppgjöri o.s.frv.

Það fór svo, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason rakti, að stjórnarandstaðan á þeim tíma greiddi ýmist atkvæði gegn frumvarpinu eða sat hjá. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði gegn því eftir að hafa fyllt þinghúsið af erlendum kröfuhöfum fyrr um kvöldið og Framsóknarflokkurinn sat hjá.

Nú má vel segja að það hafi ekki verið hægt að ætlast til þess að allir áttuðu sig á því hversu gríðarlega afdrifarík og mikilvæg þessi lagasetning var. Ég skal segja sem einn af aðstandendunum að ég áttaði mig á þeim tíma ekki á því hversu óhemjumiklir hagsmunir voru í húfi fyrir Ísland að ná þeirri lagasetningu í gegn. Ég efast um að Seðlabankinn hafi á þeim tímapunkti áttað sig á því hvílík þjóðarnauðsyn það var að fara í þessa breytingu. En það var gert og ég tel að það sé ástæða til þess að nefna Seðlabankann í því sambandi og hrósa því sem vel er gert. Þarna stóð Seðlabankinn vaktina eins og honum bar og lagði til tímanlega nauðsynlegar, óumflýjanlegar og óhemjumikilvægar breytingar á lögum. Sama er Seðlabankinn í raun og veru að gera í dag. Hann er að koma til Alþingis og biðja um tilteknar, mikilvægar forvarnaaðgerðir í þessum efnum.

Ólíkt höfumst við að. Við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum styðja þetta frumvarps og stöndum að flutningi þess vegna þess að fyrir því standa sterk rök að gera þær ráðstafanir sem þar eru lagðar til. Það er mjög mikilvægt að loka öllum mögulegum sniðgönguleiðum áður en næstu skref hefjast með flutningi mikilvægra frumvarpa sem við væntum að komi hingað inn og það hefur orðið enn mikilvægara en ella þessa helgi. Það þarf að koma hér fram, herra forseti, að Seðlabankinn tilgreindi sérstaklega sem ástæðu fyrir nauðsyn þessarar lagasetningar hér í kvöld eða nótt leka í DV sem varð á föstudagsmorguninn var þegar þar var slegið upp að í vændum væri frumvarp um 40% stöðugleikaskatt á eignir fallinna fjármálafyrirtækja, jafnvel þar sem skattandlagið væru allar eignir þeirra búa. Þetta hefur leitt skjálfta yfir kerfið og menn hafa síðan fundið aukinn þrýsting á það að hjáleiðir væru í undirbúningi eða skoðaðar til þess að sleppa út með fjármuni áður en til skattsins kæmi.

Ég tel, herra forseti, að hæstv. forsætisráðherra væri maður að meiri að biðja nú stjórnarandstöðuna afsökunar á þeim ósæmilegu ásökunum sem hann hafði uppi hér í okkar garð og einkum hv. þm. Árna Páls Árnasonar um að við værum að skemma fyrir þessu ferli með leka. Það vorum að minnsta kosti ekki við sem lákum í DV á föstudaginn (Utanrrh.: Ertu viss?) var. — Já, það er ég viss um, hæstv. utanríkisráðherra, því að samráðsnefnd um afnám gjaldeyrishafta hefur ekki verið kölluð saman í sex vikur. Við höfum þurft að lesa DV eins og aðrir eiðsvarnir nefndarmenn í samráðsnefndinni því að í okkur hefur ekki verið kallað. Þarna er hins vegar á ferðinni hættulegur og skaðlegur og raunverulegur leki sem enginn átti sér stað í fyrra tilvikinu. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra væri maður að meiri, það er lengi von á einum, ef hann bæði nú stjórnarandstöðuna og hv. þm. Árna Pál Árnason sérstaklega afsökunar (BirgJ: Heyr, heyr!) og útskýrði frekar fyrir okkur hvernig það getur gerst að út úr hinu lokaða ferli til undirbúnings frumvarpa um afnám gjaldeyrishafta skuli koma skaðlegur leki af því tagi beint í gegnum nafngreindan blaðamann DV og á forsíðu þess blaðs. Þessi leki hefur aukið þrýstinginn á að gripið sé til allra mögulegra ráðstafana til að loka hugsanlegum sniðgönguleiðum. Þetta er líka mikilvæg aðgerð til þess að Alþingi hafi síðan eðlilegt ráðrúm til að vinna með þau stóru mál nær þau koma fram og þurfi ekki að kasta til höndunum við þá vinnu. Það má ekki vera tímapressa eða þrýstingur á Alþingi að klára þau risavöxnu mál undir því að menn séu mögulega að virkja einhverjar færar sniðgönguleiðir og koma fjármunum fram hjá skattinum, bak gjaldeyrishöftunum og úr landi.

Herra forseti. Eins og ég hef sagt munum við styðja þetta frumvarp og stöndum að flutningi þess. Ég ætla ekki tímans vegna að rekja hér einstök efnisatriði frumvarpsins, það gerði hv. þm. Frosti Sigurjónsson ágætlega í framsöguræðu sinni. Á mannamáli má segja að þetta snúist um að fallin fjármálafyrirtæki eða fjármálafyrirtæki sem hafa verið fjárhagslega endurskipulögð með nauðasamningum og hvers kyns dótturfélög eða einingar þeim tengdar eða önnur sem slíkir aðilar kynnu að reyna að stofna á næstu dögum verði ekki tæki til þess að með samstæðulánveitingum, ábyrgðum, með því að smíða fjármálagerninga, með því að finna sér mótaðila hér heima og erlendis, að öllum slíkum hugsanlega mögulegum leiðum verði lokað. Við verðum að vona að það hafi tekist að róa hér fyrir hverja vík, a.m.k. flestar víkur, og reiða okkur á vinnu Seðlabankans í þeim efnum. Það er algerlega ástæðulaust að draga fjöður yfir það að málið er flókið og við höfum ekki haft langan tíma til að setja okkur inn í einstök ákvæði þess. Í grunninn snýst málið um það sem ég hef hér reynt að draga saman á mannamáli. Ég vænti þess að allir hv. þingmenn séu sammála um að loka öllum slíkum leiðum.