144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Margt gerðist í gær, það var dagur stórra tíðinda. Mig langaði að nota tækifærið í dag til að fagna þeirri ákvörðun sem varð loksins að veruleika í gær varðandi kísilver á Bakka sem er handan hornsins. Það er vert að hugsa til þess að þetta er stefnubreyting sem varð á síðasta kjörtímabili þegar afnám einkaleyfi Alcoa var tekið til að eiga þarna tækifæri til uppbyggingar á Bakka við Húsavík og við fórum að einbeita okkur að minni og meðalstórum framkvæmdum sem síður kollsteypa innviðum eins og við höfum rekið okkur á og veldur ekki þeirri miklu þenslu sem hefði getað orðið. Ég held að þetta sé til mikilla bóta fyrir svæði sem hefur verið í vörn.

Íbúasamsetning hefur verið frekar neikvæð, bæði á Húsavík og í Suður-Þingeyjarsýslu. Í byggðalegu tilliti er þetta mjög gott. Þetta skapar fjölbreyttari atvinnutækifæri. Það verða til afleidd störf á svæðinu og ánægjulegt fyrir svæði sem hefur verið að byggjast upp, m.a. í kringum ferðamennskuna, að fá þá áskorun að láta þetta vinna vel saman. Það er talað um að það verði í kringum 400 störf við uppbygginguna og 120 framtíðarstörf. Þá er það auðvitað fyrir utan afleiddu störfin. Þetta er mikilvægt fyrir lítið samfélag eins og Húsavík en þetta stóra svæði er þó undir.

Það má líka benda á að þær miklu framkvæmdir sem þarna hefjast hafa þau áhrif að önnur afleidd störf við iðnaðaruppbyggingu á svæðinu fyrir þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki verða möguleg sem hefði annars (Forseti hringir.) ekki orðið.