144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir að ég held að það sé full ástæða til að reyna að skera úr um ýmis álitamál tengd þessu máli sem við erum að ræða þessa dagana, ríkisfjármálaáætlun, hvaða þýðingu hún hefur og hvort ekki þurfi að endurskoða hana í ljósi nýjustu tíðinda. Ef ekki þarf að endurskoða þessa áætlun í ljósi nýjustu tíðinda, hefur hún þá einhverja þýðingu? Af hverju er þá verið að samþykkja hana og af hverju er hún lögð fram? Þetta eru ýmsar stórar spurningar sem ég held að nefndinni væri hollt að glíma við, kannski ásamt ráðherra.

Svo tek ég líka undir það að það er mjög einkennilegt að ekki sé búið að boða fund formanna flokkanna um þinglok löngu eftir að starfsáætlun er fallin úr gildi. Það er komið svolítið inn á sumarið og kannski full ástæða til að benda hæstv. forseta á að það eru bara svona sjö vikur þangað til annað þing á að hefjast ef við gerum ráð fyrir lögbundnu sumarleyfi sem er fimm vikur. Það er bara ekkert svo langur tími (Forseti hringir.) þannig að menn ættu kannski að huga að því að fara að boða fund og reyna að sjá þetta einhvern veginn fyrir sér.