144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi ýmsa veikleika þessarar tillögu og ræddi þá út frá stóru myndinni. Ég er mjög sammála þeirri nálgun og var á svipuðum slóðum sjálfur í ræðu fyrr í dag.

Þá er það líka rétt að það er ágalli á þessu máli að efnahags- og viðskiptanefnd var ekki á nokkrum hátt kölluð að borðinu. Hún er þó sú nefnd sem vinnur almennt með efnahagsmál og viðskiptamál og löggjöf á því sviði, með fullri virðingu að sjálfsögðu fyrir fjárlaganefnd. Nú hefur margt breyst, eins og hv. þingmaður kom inn á, og maður veltir fyrir sér hvort ekki hefði verið hyggilegast að fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd hefðu fengið til sín gesti í einni sameiginlegri fundarlotu upp á nokkra klukkutíma og farið yfir þessa hluti, fengið Seðlabankann, fjármálaráðuneytið og Hagstofuna, fengið þá sem gætu helst gefið einhverja mynd af því hvernig þessar forsendur eru að þróast. Það er svo margt undir í þeim efnum.

Hv. þingmaður nefndi það stóra mál hvort menn nálgist af ábyrgð meðferð þeirra fjármuna sem kunna að koma í gegnum nauðasamningana inn í Seðlabankann og er auðvitað gríðarstórt. Fyrst og fremst liggur eitt fyrir eða tvennt, að fyrstu skattarnir verða þá væntanlega notaðir í að bera eftirstöðvar kostnaðarins af skuldaniðurfærslunni. Hún er um garð gengin og peningarnir greiddir út en tekjurnar voru ókomnar af bankaskatti. Síðan er að gera upp skuldabréf við Seðlabankann. En hvað verður gert við restina ef það verða einhver hundruð milljarða? Margir hagfræðingar mundu væntanlega leggja til að þeim peningum yrði eytt, þeir yrðu settir í tætarann, ekki bara passað upp á að þeir færu ekki beint í umferð heldur einfaldlega bara peningamagnið í umferð minnkað vegna þess að það er allt of mikið. Þetta eru gríðarstór mál sem þyrfti að vera einhvers staðar næði og rúm til að ræða. Ég er alveg hjartanlega sammála því að þetta er það sem (Forseti hringir.) þessi tillaga þyrfti að takast eitthvað á við eða alvörutillaga sem marktæk væri.