144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst alveg einboðið að hæstv. forseti geri fundarhlé og kalli saman fund með þingflokksformönnum og fyrsta forseta vorum, hæstv. forseta Einari Kristni Guðfinnssyni, og fari yfir þessi mál.

Sá forseti sem sat hér fyrr í dag tilkynnti að seinna í dag yrði fundur og svo hefur ekkert verið boðað til fundar. Það er ekki hægt að bjóða okkur þingmönnum upp á allt. Við látum ýmislegt yfir okkur ganga á þessum vinnustað, vitum aldrei fyrir fram hvað vinnudagurinn verður langur og algjör óvissa er um hvaða mál eru á dagskrá daginn eftir hverju sinni og ýmislegt sem menn eru ekki að væla yfir að öllu jöfnu. Þetta er þó gengið svo langt að þegar menn funda og treysta því að það standi að það verði formannafundur til að reyna að greiða úr (Forseti hringir.) þeirri flækju sem er hérna í þingstörfum og það er bara allt upp í loft og óljóst er það ekki boðlegt. (Gripið fram í: Það er rétt.)