144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Meiri hlutinn í fjárlaganefnd hefur það í höndum sínum að gera þetta faglega núna. Hann ætlaði að fara af stað með þetta og gera þetta einhvern veginn en nú hefur komið upp réttmæt gagnrýni á það að Alþingi eigi síðan að samþykkja að ríkisstjórnin fari eftir stefnumótun sem hvílir á grunni brostinna forsendna.

Það hefði verið hægt að tvinna við það nefndarálit þar sem tíundað hefði verið hvernig grundvöllurinn hefur breyst og haft áhrif á stefnumótunina. Stefnumótunarferlinu er ekkert lokið, því er ekki lokið fyrr en síðari umr. er lokið. Það er umræðan sem við erum í og eftir hana er stefnumótunarferlinu lokið.

Meiri hluti nefndarinnar og forseti Alþingis hafa það því í höndum sínum að gera þetta ferli faglegra. Það er það sem við erum að kalla eftir. Forseti þingsins hefur í 25. gr. heimild til að vísa máli til nefndar á hverju stigi þess og meiri hluti nefndarinnar getur kallað eftir því líka. Haldinn verður fundur í nefndinni á morgun þar sem meiri hluta gefst tækifæri til að kalla málið til sín. Þetta er ekkert flókið, þá kallar meiri hlutinn málið bara til sín. Við eigum alla vega eftir að vera viku í viðbót hér á þinginu og þá er hægt að senda málið í umsagnarferli, fá umsagnir frá þessum aðilum.

Hvað kostar það okkur? Það kostar okkur það að við þurfum að hætta að ræða þetta mál og fara að ræða önnur þarfari mál, það er það sem það kostar okkur. Svakalegur kostnaður það eða hitt þó heldur. Svo þarf nefndin að ræða um þetta á morgun, sem hún gerir hvort eð er, kalla eftir umsögnum. Nefndin og þingmenn þurfa ekki að gera neitt annað, bara bíða eftir þeim. Þegar umsagnirnar berast þurfum við að renna í gegnum þær og meiri hlutinn getur sett þær inn í framhaldsnefndarálit sitt, sem er heimilt samkvæmt þingsköpum í 29. gr. Það er allt og sumt sem þarf að gera til þess að gera þetta ferli faglegra.