144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:29]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Viðræðurnar um þinglokin snúast um það að þingmenn semji af sér réttinn til þess að tala í ákveðnum málum. Ef klára á 74 mál þegar starfsáætlun er liðin þá felast samningarnir í því að menn semja af sér réttinn til að tala í ákveðnum málum. Nú skiptast þessi mál þannig að það er samkomulag um sum þeirra, það eru allir sammála um þau. Sum eru þannig að það þarf að klára þau vegna þess að það eru dagsetningarmál. Önnur eru þannig að það er ágreiningur um þau. Sum þessara mála eru þannig að það er ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um hvernig eigi að ljúka þeim.

Þá gengur ekki að menn komi aftur og aftur á samningafundi um þinglok og séu að reyna að koma 74 málum í gegn. Það er enginn tilbúinn til þess. Þá hljóta menn að reyna að nesta sig með einhverjum öðrum hætti. Nú hefur stjórnarandstaðan sýnt að hún er tilbúin til þess (Forseti hringir.) með afar ábyrgum hætti að koma að því að leysa hér brýn hagsmunamál þjóðarinnar. Þá verður eitthvað að koma á móti frá stjórninni. Maður gerir ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn.