144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

um fundarstjórn.

[20:40]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þekki það af störfum mínum sem forseti Alþingis að sá hæstv. forseti sem situr hér að baki mér hefur ekki völd til að slíta fundinum nema í samráði við þann forseta sem er hér alla jafna, hæstv. forseta Einar Kristin Guðfinnsson. Mér finnst skipta miklu máli að hann setjist niður og þetta verði ákveðið.

Það sem er pínlegt í þessu er að það var haldinn formannafundur áðan og hæstv. forsætisráðherra var ekki einu sinni á þeim fundi. Hann er ekkert að semja um þetta. Tekur engan þátt í þessu. Hvers vegna ekki? Kannski vegna þess að hann er vanhæfur til þess, það kann að vera, sú viðurkenning hefur þó ekki komið fram. En við erum í þessari undarlegu stöðu þegar full ástæða er til að vinna að því að koma málum áfram. Það verður aldrei gert öðruvísi en að við náum sátt um málalyktir og getum forgangsraðað fram á sumarið, hverju við ætlum að ljúka áður en við förum héðan úr þingsal.