144. löggjafarþing — 126. fundur,  10. júní 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[15:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni sagði ég að mönnum gæti skjöplast og skrikað fótur, jafnvel á sinni eigin tungu. Það gerist oft, það þekkjum við. Margsinnis hef ég lent í því sjálfur. Þá reynir á sálarþrek manna og hvað þeir vilja vera heiðarlegir. Ef í ljós kemur að viðkomandi telur enga ástæðu til að draga til baka ummæli sín sem eru á þá lund að annar stjórnmálamaður hafi unnið gegn hag þjóðarinnar, sé þar af leiðandi uppvís að því að hafa framið það sem menn hafa hér kallað landráð og ef hann vill ekki draga það til baka þá er niðurstaðan sú að það sé ásetningur hans að sverta með þeim hætti mannorð viðkomandi þingmanns. Þá á þingið ekki annars úrkosti en að fjallað verði um það í forsætisnefnd, komist að niðurstöðu og þá verður auðvitað að víta þingmanninn. Mér finnast það miklu verri lyktir, mér finnst að menn eigi að jafna þetta eins og menn gera jafnan þegar hiti hleypur í leikinn og draga þetta til baka og láta þar við sitja.