144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

lengd þingfundar.

[14:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Tillaga forseta um að halda kvöldfund kemur mönnum hér á óvart þar sem ekki hefur verið talað um það við minni hlutann á þingi en ég tek undir orð hv. þm. Guðbjarts Hannessonar áðan, það er mjög mikilvægt fyrir okkur, almenna þingmenn sem sitjum ekki í viðkomandi nefnd sem fær málið til umfjöllunar, að nefndin fái góðan tíma til að kalla fyrir sig stéttarfélögin, samninganefnd ríkisins, ríkissáttasemjara, hæstv. fjármálaráðherra og fleiri þá sem þarf að kalla fyrir (Gripið fram í.) til að fara almennilega í gegnum málið og búa það til 2. umr. ef svo vill verða.

Þess vegna er mjög mikilvægt að menn tali hér bara um 1. umr. málsins og síðan gengur þetta til nefndar eins og ég gat um áðan. Þá legg ég áherslu á fagleg vinnubrögð þar inni með því að grennslast fyrir um það hjá aðilum hvað ber raunverulega á milli. Mig vantar að vita hversu mikið beri á milli. Hver er samningsstaðan (Forseti hringir.) gagnvart ríkinu? Hvað vill ríkið setja fram? Hvar er mismunurinn? Hann verður að koma fram í nefndarvinnunni.