144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[15:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hlýtur að vera hv. þingmönnum meiri hlutans, sem eru nú svo sem fáir eftir í þessum sal, áhyggjuefni, að þetta er í fjórða sinn sem ríkisstjórnin leggur fram frumvarp um lagasetningu á verkföll á þessu kjörtímabili. Tvö þessara frumvarpa urðu að lögum. Það var fyrsta frumvarpið sem sett var á starfsmenn á Herjólfi 1. apríl 2014. Þá strax hafði ég og margir fleiri hv. þingmenn uppi varnaðarorð um það fordæmi sem sú lagasetning mundi skapa. Næsta frumvarp var um frestum verkfallsaðgerða hjá flugmönnum, það var samþykkt og varð að lögum. Síðan var lagt hér fram frumvarp um lagasetningu á flugvirkja. Flugvirkjar drógu verkfallsaðgerðir til baka áður en lögin voru samþykkt. Hér er fjórða frumvarpið. Ég verð að segja það, herra forseti, að það kunna að koma upp tilfelli þar sem lagasetning er réttlætanleg á verkföll, en þá þurfa að vera mjög ríkir hagsmunir undir. Það sem ég hef áhyggjur af, ef þetta verður samþykkt, er að þá er orðin veruleg breyting á þeirri tilhneigingu sem verið hefur hér á vinnumarkaði frá aldamótum þar sem lagasetningar hafa verið mjög fátíðar, sem betur fer.

Þegar við horfum á þróunina frá 2000 leit út fyrir að þetta væru farin að verða einstök tilfelli. Sagt er að við verðum að horfa á hvert tilfelli sérstaklega, það er vissulega rétt, en við hljótum að hafa áhyggjur af því að þetta virðist vera rík tilhneiging hjá núverandi ríkisstjórn. Kjörtímabilið er bara hálfnað. Ég spyr: Hver er hvatinn til að ná samningum fyrir stjórnvöld ef þetta er alltaf uppi í erminni sem hin endanlega lausn?

Ég hef líka áhyggjur af því, og ég mun koma betur að því síðar í ræðu minni, hvaða áhrif þessar ítrekuðu lagasetningar munu nákvæmlega hafa til framtíðar á stöðu vinnumarkaðsmála og kjaradeilna hér á landi.

Ef við skoðum málið sjálft sem hér liggur fyrir verður auðvitað að minna á að við erum með stjórnarskrárvarin réttindi sem er samningsrétturinn. Hann byggir líka á mannréttindasáttmálanum þar sem skilgreint er hvað þurfi til til að verja í raun rétt fólks til að berjast fyrir kaupi og kjörum sínum gagnvart vinnuveitendum. Verkfallsrétturinn hefur verið talinn mikilvægasta leiðin til að tryggja frelsi stéttarfélaga. Í mannréttindasáttmálanum er sú túlkun birt að verkfallsrétturinn skuli ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði, réttindum eða frelsi annarra.

Þetta þarf ávallt að rýna þegar frumvarp á borð við þetta kemur fram. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd þarf að fara yfir málið og meta hvort hún telur að þessi skilyrði séu uppfyllt, því að það liggur líka fyrir að við höfum dómafordæmi frá sjómannaverkfallinu þar sem dómur féll og var fallist á margar forsendur ASÍ í því máli. Við skulum því átta okkur á því að þarna þarf nefndin að gefa sér góðan tíma til að fara yfir þessar forsendur. Það liggur líka fyrir að hluti þeirra stéttarfélaga sem hér eru, þ.e. hluti þeirra aðila sem eru innan borðs hjá BHM eru vissulega heilbrigðisstarfsmenn, en við erum líka með aðrar faggreinar þar sem ekki verður séð að verkfallsaðgerðir ógni heilsu eða öðrum þáttum sem ég nefndi. Það þarf því svo sannarlega að rýna þetta út frá þessum ákvæðum.

Við vitum að innan kröfugerðar BHM hafa ekki aðeins verið kröfur um kjarabætur heldur líka kröfur um framlög stjórnvalda á öðrum sviðum. Ég hef komið að nokkrum hér, m.a. um að eitthvað verði gert hvað varðar Lánasjóð íslenskra námsmanna og líka að rekstur heilbrigðisstofnana verði styrktur. Við vitum öll að þar er brýn þörf. Ég veit líka að það er mikilvægt að endurskoða lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna og fara þar yfir til að mynda þær endurgreiðslur sem við bjóðum upp á. Það þarf að breyta kerfinu til frambúðar. Fyrir þinginu liggja tillögur um þessi mál sem unnar voru í samráði við aðila vinnumarkaðarins og námsmannahreyfingarinnar. Þær lágu fyrir þinginu veturinn 2012–2013, en menn náðu ekki afgreiða þær þá, því miður. Því miður segi ég, því að við getum rætt hér um að það þurfi að fara nýjar leiðir, það þurfi að færa okkur nær norræna vinnumarkaðsmódelinu. Já, gerum það, en færum okkur þá líka nær Norðurlöndunum á öðrum sviðum, tryggjum að fólk sé ekki með skuldir alla ævi, að greiða niður menntun sína alla ævi, og breytum þessu kerfi okkar almennilega. Tillögurnar liggja allar á borðinu. Það þarf bara pólitískan vilja til. Við höfum séð að stjórnvöld hafa jú komið með framlög. Þau hafa komið með framlög inn í samninga á almennum markaði. Þau hafa skrifað undir yfirlýsingar í tengslum við læknasamninga. Þau hafa komið með yfirlýsingar í tengslum við samninga við framhaldsskólakennara. Hvar er vilji stjórnvalda í þessum samningum?

Búið er að boða hér skattalækkanir og afnám eins þreps í þrepaskipta skattkerfinu upp á 15–17 milljarða. Herra forseti. Þegar stjórnvöld geta nýtt kjarasamninga til að koma stefnu sinni á framfæri, gömlu góðu nýfrjálshyggjustefnunni sem byggir á skattalækkunum, sem byggir á ýmsum öðrum þáttum, stefnu sem er löngu gjaldþrota — ég átti hér síðast í gær orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um nýlega rannsókn frá Cambridge-háskóla á hvaða áhrif þessi stefna hafi haft í kjölfar stjórnartíðar Margrétar Thatcher í Bretlandi. Niðurstöðurnar eru sláandi því að þær sýna að stefnan sem við kennum við nýfrjálshyggju hafði í för með sér aukið atvinnuleysi, aukinn ójöfnuð, en hún hægði líka á vexti samfélagsins. Hún hægði á vexti og velsæld samfélagsins. Það má því segja að þegar við setjum nú verkið í boxin þá fær þessi stefna núll á öllum sviðum, en íslenska ríkisstjórnin hefur ekki heyrt af þessu og það eina sem hún hefur til málanna að leggja hér eru skattalækkanir. Svo er talað um eitthvert norrænt vinnumarkaðsmódel, en það er ekki vilji til þess að ráðast í breytingar til þess að tryggja norrænt velferðarkerfi samhliða norrænu vinnumarkaðsmódeli. Þetta þarf að fara saman, herra forseti. Ef við ætlum að skapa einhvern frið um slíkar breytingar þarf þetta að fara saman.

Aðeins um málið sem hér liggur fyrir. Hér hefur verið rætt um skipan svokallaðs gerðardóms. Í frumvarpinu segir að Hæstiréttur Íslands skuli tilnefna þrjá menn í gerðardóm.

Þegar við fengum til umfjöllunar frumvarp hæstv. ríkisstjórnar um lagasetningu á verkfall flugmanna var sá gerðardómur skipaður með þeim hætti að Hæstiréttur tilnefndi formann og deiluaðilar, Samtök atvinnulífsins annars vegar og FÍA, Félag íslenskra atvinnuflugmanna, skipuðu hvor sinn aðilann. Þannig er jú gerðardómur yfirleitt skipulagður, ekki satt, herra forseti? Deilendur eiga þar aðkomu.

Ég spyr: Af hverju er þetta gert með þessum hætti? Ég fæ ekki betur séð en að með þessari skipan séum við að tala um stjórnsýslunefnd sem skipuð er til þess að komast til botns í málinu. Henni eru sett stíf skilyrði, eins og hér hefur verið nefnt af mörgum hv. þingmönnum, hér á að miða við þá kjarasamninga sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015. Ekki er til að mynda miðað við samninga frá áramótum. Ég reikna með því að minni hlutinn muni allur styðja þá breytingartillögu sem hér hefur verið boðuð um að þeirri dagsetningu verði breytt. En einnig er rætt um stöðugleika efnahagsmála.

Þá finnst mér mikilvægt, herra forseti, hvernig nákvæmlega við skilgreinum stöðugleika efnahagsmála. Snýst stöðugleiki efnahagsmála um að halda ákveðnum launastrúktúr í samfélaginu? Er það það sem stöðugleiki efnahagsmála snýst um? Við höfum jú heyrt þá túlkun að stöðugleiki efnahagsmála sé fyrst og fremst á ábyrgð þeirra sem lægri hafa launin. Það er sú túlkun sem stundum hefur verið fleygt hér. Ég held að aldrei geti orðið stöðugleiki í efnahagsmálum nema við tryggjum ákveðinn jöfnuð í samfélaginu. Hæstv. ráðherrar hafa verið duglegir að minna á að tekjujöfnuður sé góður á Íslandi, hann hafi aukist. Það er rétt miðað við tölur frá 2013 — tölur frá 2014, segir hæstv. flytjandi málsins, sem miðast samt við þróun áranna á undan. Að núverandi hæstv. ríkisstjórn þakki sér þann árangur er auðvitað fráleitt í ljósi þess að þær aðgerðir sem hún hefur verið að grípa til, ekki síst á sviði skattamála, geta ekki orðið til þess að auka hér tekjujöfnuð.

Við hljótum að hafa áhyggjur og bera kvíðboga fyrir því sem ég nefndi hér í upphafi og vil koma aftur að í lok máls míns. Lagasetningum á verkföll hefur fækkað á Íslandi frá aldamótum. Margir, þeirra á meðal ég, hafa talið æskilegt að þetta sé tæki sem vonandi verði bráðum með öllu úrelt, að við breytum menningu okkar í þessum málum þannig að við þurfum ekki að horfa upp á það að Alþingi stígi með þessum hætti inn í kjaradeilur. Ég spyr: Hver er hvatinn til samninga ef alltaf vofir yfir lagasetning við endann á göngunum? Hver er hvati stjórnvalda sérstaklega sem eru viðsemjandi í þessu máli til að semja ef slík lagasetning vofir yfir?

Ég átta mig líka á því að kjarasamningamenningu, ef við getum talað um það, verður ekki breytt í einu vetfangi. Að sjálfsögðu ekki. Það verður gert til lengri tíma með samskiptum milli aðila sem byggjast á gagnkvæmri virðingu og samtali. Mér þykir leitt að heyra það frá forsvarsmönnum þeirra stéttarfélaga sem hér um ræðir að þeir upplifi að þessar viðræður hafa ekki verið af neinni alvöru af hálfu ríkisvaldsins. Mér finnst mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd fari yfir það í umfjöllun sinni um málið, því að ef við ætlum að breyta þessari menningu þá þurfum við að hugsa þetta til lengri tíma. Þá þurfa allir að sitja við borðið og upplifa það að alvöruviðræður séu í gangi.

Ég hef líka áhyggjur af því hvernig þessi mál horfa til lengri tíma, því að ég get, eins og allur almenningur í þessu landi, tekið undir þær áhyggjur sem ég veit að margir sjúklingar hafa; af stöðu sinni, af bið eftir niðurstöðum og öðru slíku, en við verðum líka að hugsa til lengri tíma, herra forseti. Það sem við blasir er að 900 hjúkrunarfræðingar eru að komast á eftirlaunaaldur. Við eigum von á að 450 hjúkrunarfræðingar útskrifist á sama tíma. Við heyrum nú þegar í mörgum hjúkrunarfræðingum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum sem hafa hug á að flytja úr landi. Þetta er ekki einsdæmi, eins og ég átti orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um, þetta er vandamál víðar, en ættum við ekki að leggja allt kapp á hvernig við getum byggt upp hér til framtíðar til að tryggja að þetta muni ekki eiga sér stað?

Herra forseti. Ég vil ganga svo langt að segja að það sé ein undirstaða þess að við séum farsælt og sjálfstætt ríki að hér fúnkerandi heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Það eru undirstöður í samfélagi okkar. Það er það sem fólkið í landinu verður að geta treyst á að sé til staðar.

Ég óttast að við horfum á einhverjar slíkar afleiðingar, sem ég vona að verði ekki, ég vona svo sannarlega og meina það af heilum hug að við horfum fram á einhverja uppbyggingu í nánustu framtíð í þessum geira, að fólk finni það hjá sér að það vilji vera hér á Íslandi og starfa, en við vitum líka að þetta eru eftirsóttir starfskraftar. Ég hugsa bara um stöðu þeirra sem hér munu búa í framtíðinni. Verðum við ekki að staldra við, herra forseti? Því að svona mál getur haft langtímaafleiðingar þó að það sé smátt að vöxtum. Það getur haft langtímaafleiðingar fyrir heilbrigðiskerfi Íslendinga sem hefur þurft að taka á sig miklar byrðar eins og þjóðin öll undanfarin sjö ár. Einu sinni tóku allir á sig launalækkanir, hlupu hraðar fyrir minna. Það á við um alla innviði samfélagsins, allt hið opinbera kerfi og ég segi að við ættum fremur að þakka öllu þessu fólki fyrir að hafa tekið þær byrðar á sig með okkur öllum, líka fólkinu á hinum almenna markaði. En núna þegar við ræðum um að horfurnar séu bjartari í efnahagsmálum, að uppbygging sé að hefjast, er það áfall að fá lagasetningu á verkfall allra þessara starfsmanna einmitt þegar við ættum að horfa til bjartari tíðar og uppbyggingar.

Herra forseti. Ég hef mjög miklar áhyggjur af afleiðingum þessa máls, verði það að lögum hér.