144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um, ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra að því áðan, varðar að það liggur fyrir að kröfugerð BHM snýst um kaup og kjör en hún hefur líka snúist um aðra þætti. Þar hafa verið settar á oddinn umbætur í heilbrigðisþjónustu og hæstv. heilbrigðisráðherra svaraði því til að sitthvað væri í undirbúningi þar í tengslum við fjárlögin. Hún hefur líka snúist um stöðu Lánasjóðs íslenskra námsmanna og kerfisbreytingu á þeim bæ þannig að við færum okkur meira inn í norræna kerfið að þessu leyti. Hæstv. fjármálaráðherra talar hér mikið um að við þurfum að endurskoða vinnumarkaðsmódelið, að við þurfum að líta til Norðurlandanna. Gott og vel. Þurfum við þá ekki að gera það í samhengi við annað, bæði hvað varðar uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar og til að mynda breytingu á lánasjóðskerfinu? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hreint út: Hafa stjórnvöld verið tilbúin að setja eitthvað slíkt á borðið í þessum samningaviðræðum? Þá er ég ekki að spyrja um einhverjar krónutölur í launatölu, ég er að spyrja um útspil til að greiða fyrir slíkum samningum.