144. löggjafarþing — 129. fundur,  13. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[17:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að tala lengi hér en eins og ég mun koma að síðar þá eru orðaskiptin sem fóru fram rétt í þessu gríðarlega mikilvæg, áherslurnar sem komu frá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur og formanni allsherjarnefndar, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, og áður frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um túlkun á þeim ramma sem svokölluðum gerðardómi er gert að starfa samkvæmt. Þetta er grundvallaratriði og ég legg áherslu á að það sem sagt er við þessa umræðu, ekki síst af hálfu formanns allsherjarnefndar sem er að skýra þann skilning sem meiri hluti nefndarinnar leggur í þetta ákvæði, skiptir mjög miklu máli.

Ég sagðist ekki ætla að tala lengi, en ég vil þó segja að siðleysisþráðinn í þeim rembihnút sem orðinn er til í þessari kjaradeilu má rekja til ákvæðis sem Samtök atvinnulífsins þröngvuðu inn í kjarasamninga við Alþýðusambandsfélögin, félögin á almennum markaði. Það er dapurlegt að þau skyldu fallast á ákvæði um rauð strik gagnvart öðrum kjarahópum en þessir aðilar sömdu um sjálf. Það er mjög ámælisvert. Þetta er siðleysisþráðurinn.

Síðan er það vesældómsþráðurinn í þessum rembihnút. Hann er að finna hér við þetta borð sem er autt núna, það er ráðherrabekkurinn, að leggjast undir straujárnið sem þarna var búið til og fallast á að línurnar skuli lagðar af hálfu þessara aðila, af LÍÚ sem hefur innan sinna raða aðila sem nýbúnir eru að greiða eigendum sínu, eigendum sjávarfyrirtækja, milljarða í arð en reynast síðan nirflar, mestu nirflar og aumustu nirflar landsins þegar kemur að kjörum annarra. Undir þeirra straujárn leggst þessi ríkisstjórn og það er vesælt hlutskipti.

Ég gerði í gær grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég vildi hafa að leiðarljósi í þessari óheilladeilu. Áður hafði hæstv. fjármálaráðherra gert grein fyrir sínu leiðarljósi í málum af þessu tagi. Það leiðarljós er reyndar komið undir græna torfu, hvílir í sinni gröf, en arfleifðin er hér, arfleifð Margrétar Thatcher sem hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson mærði svo heitt fyrir fáeinum dögum, hún er hér. Þá arfleifð er að finna í þessu frumvarpi, í nálgun að þessu máli, það er arfleifð Margrétar Thatcher sem sagði á áttunda áratugnum þegar hún ruddi sér til rúms í breskum stjórnmálum, ég bjó þá í Bretlandi, og ég var fréttaskýrandi í erlendum fréttum á sjónvarpinu þegar hún varð forsætisráðherra Bretlands, og sagði að sitt fyrsta verk yrði að ganga milli bols og höfuðs á samtökum launafólks. Hún gekk til verks. Hún setti lög og reyndi að bregða fæti fyrir samtök launafólks sem best sem hún gat vegna þess að allt sem hét samstarf og samvinna var þyrnir í hennar auga. En eins og við vitum og söguritarar geta borið vott um þá var það ekki síst samvinnan og samstarfið á meðal launafólks og samtaka launafólksins sem skilaði okkur þeim árangri sem 20. öldin gerði, mesta framfaraskeiði mannkynssögunnar.

Það er vesælt hlutskipti að ríkisstjórn Íslands á árinu 2015 skuli feta í þessi fótspor, því það er verið að gera með því að reyna að leysa deilu milli aðila um launakjör með valdboði, vegna þess að þetta frumvarp er náttúrlega valdboð. Þetta er valdboð.

Ég sakna eins þáttar sérstaklega í greinargerð frumvarpsins og inn í lagatextann og það er tilkostnaðurinn sem orðið hefur til á þeim heimilum sem hafa tekið þátt í þessari kjarabaráttu. Að sjálfsögðu þarf að horfa til hans þegar þessi mál eru gerð upp. Fólkið nýtti sér löglegan lýðræðisventil og sýndi með verkfalli sem hefur staðið á þriðja mánuð þá alvöru sem býr að baki. Ég þakka fyrir þessa baráttu. Ég þakka fyrir hana.

Ég segi bara eitt. Þrátt fyrir þessi lög verður að tryggja að samstaðan og þessi mikla barátta fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi skili sér til þessa fólks. Það er þess vegna sem ég er farinn að rýna núna í lagatextann og þess vegna ætla ég að leyfa mér að fagna orðum formanns allsherjarnefndar og ég fagna líka orðum hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur hér áðan og ég horfi líka á textann í meirihlutaálitinu sem áréttar að það skuli við úrskurð svokallaðs gerðardóms taka mið af sambærilegum stéttum, ábyrgð í starfi, hvað á starfsfólkinu hvílir, það skal horft til menntunar og væntanlega tilkostnaðar við hana. Síðan er að finna, reyndar ekki í meirihlutaálitinu, en í lagatextanum er að finna skírskotun til samninganna með þessu illa ákvæði frá því núna í maí, en það skal horft til þeirra eftir atvikum. Núna skiptir máli hvernig lesið er í þennan texta. Það verður að gera það. Það verður að horfa mjög nákvæmlega til þess hvernig á að lesa í þennan texta.

Þá spyr ég náttúrlega: Hvers vegna breytum við ekki textanum og gerum hann skýrari á þann veg sem stjórnarandstaðan er að leggja til? Auðvitað er rökrétt að koma fram breytingum á lagatextanum í samræmi við þann skilning sem er að finna hjá meiri hluta allsherjarnefndar og ég er að fagna. Það væri eðlilegt að breyta textanum til samræmis við þann skilning sem við höfum heyrt lagðan í ákvæðið frá hv. formanni allsherjarnefndar. Það er mjög mikilvægt það sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði áðan vegna þess að gerðardómurinn sem kemur til með að taka til starfa horfir til orða hennar sem lögskýringar, sem lögskýringargagns. Það er mjög mikilvægt að halda þessu til haga.

Hæstv. forseti. Að lokum þetta: Skynsamlegast af öllu er að draga þetta frumvarp til baka og fela samninganefnd ríkisins að fara að orðum formanns allsherjarnefndar Alþingis og semja við þessa hópa í samræmi við þær áherslur sem þar komu fram. Það væri hið skynsamlega í stöðunni. Það er það sem okkar tillögur í stjórnarandstöðunni ganga fyrst og fremst út á.