144. löggjafarþing — 135. fundur,  23. júní 2015.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Eitt stærsta málið sem er deilt um á þessu sumarþingi er makríllinn og er í raun og veru það mál sem ég held að standi mest í okkur sem erum að reyna að semja um þinglok. Almenningur í landinu er kannski ekki alltaf með á nótunum út á hvað það gengur og það hafa safnast yfir 51 þús. undirskriftir á thjodareign.is þar sem er skorað á forseta Íslands að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu ef fiskveiðiauðlindinni verði ráðstafað til lengri tíma en árs í senn.

Þær breytingar sem hafa verið gerðar núna í atvinnuveganefnd ganga út á það að verið er að úthluta aflahlutdeild til ótímasetts tíma, bara fram í framtíðina. Í raun og veru er þetta enn þá alvarlegra en frumvarpið sem upphaflega var lagt fram sem var til sex ára. Nú er þetta ótímabundið eins og er í lögum um stjórn fiskveiða sem auðvitað hefur verið mikið gagnrýnt í samfélaginu. Á þeim forsendum er auðvitað óásættanlegt að samþykkja eitthvað slíkt.

Ég vil vekja athygli á fréttatilkynningu frá aðilum sem stóðu að þessari undirskriftasöfnun. Þó að þeir geti aldrei verið málsvarar 51 þús. manns þá stendur auðvitað þessi texti fyrir sínu. Þeir segja hér í lokin:

„Alþingi er í lófa lagið að taka af allan vafa með því að setja í lagafrumvarpið ótvírætt ákvæði um að úthlutun aflahlutdeildar makríls verði aðeins til eins árs í senn.“

Undirskriftasöfnun á thjodareign.is heldur því áfram allt þar til útséð er um afdrif makrílfrumvarpsins. (Forseti hringir.) Ég vil undirstrika það og hvetja fólk til þess að kynna sér þessi mál og setja nafn sitt þarna undir.