144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[16:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við í fjárlaganefnd fengum ágætisyfirferð frá Vegagerðinni og atvinnuvegaráðuneytinu og var áhugavert að heyra hvernig þetta mál allt kom til. Maður getur haft vissan skilning á því hvernig þetta hefur þróast. Ég velti fyrir mér á sínum tíma þegar lögin voru samþykkt hvort það hafi þá verið mistök að setja einhverja ákveðna upphæð á þetta verk þar sem í rauninni hafði ekki farið fram nein ítarleg rannsókn eða könnun á því hvað jarðgöng mundu kosta. Við fengum alveg útskýringar á því að menn voru ekki einu sinni vissir um á þeim tímapunkti að eitthvað yrði af verkefninu.

Spurningin til hv. þingmanns er því þessi: Hefði hún talið betra að setja ekki aðeins 10–15 milljónir í að gera einhverja úttekt á þessari gangaframkvæmd heldur meiri pening og meiri vinnu í það verk, ja, ég veit það ekki, kannski hefði þurft 50–100 milljónir til að gera ítarlegri úttekt á þeim tíma, jafnvel þótt menn hafi ekki einu sinni verið vissir um að farið yrði í verkið? Eða hefði bara átt að sleppa að tala um einhverja upphæð? En þá erum við að sama skapi með kannski óútfylltan tékka. Þetta er meðal þeirra spurninga sem hafa vaknað, vegna þess að það lá svo sem alveg ljóst fyrir fyrir nokkrum árum að Húsavík er á jarðskjálftasvæði, þannig að það hefði ekki átt að koma neinum á óvart. Það þarf að sjálfsögðu að setja peninga í rannsóknir, slíkt gerist ekki af sjálfu sér og er ekki ókeypis.