144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

ummæli ráðherra um hótanir kröfuhafa.

[10:16]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Skelfing er þetta nú aumt. Voðalega er nú lágt lagst þegar dregnar eru fram svona langsóttar tilraunir til að gera það tortryggilegt sem hv. þingmaður, eins og allir aðrir í þessum sal, fagnaði fyrir fáeinum vikum en sér núna væntanlega eitthvert tækifæri í því að búa til tortryggni um þetta mál eins og allt annað. Hv. þingmaður þarf ekkert að fullyrða um það að ég haldi því fram að ég sé einhver hetja eða hafi gert hitt og þetta. Ef ég ætlaði að læra slíkt af einhverjum þá mundi ég líta til viðtala við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon á síðasta kjörtímabili. Þar skorti ekki lýsingarnar á eigin ágæti.

Hvað varðar hins vegar þá niðurstöðu sem hér um ræðir er ekkert að því að tala um samninga. Önnur af þessum leiðum er samningaleið, nauðasamningaleiðin, en ríkið á ekki beina aðkomu að þeim nauðasamningum. Þetta hlýtur hv. þingmaður að þekkja. En uppfylli þessir nauðasamningar þau skilyrði sem stjórnvöld setja, einhliða skilyrði, óumsemjanleg þá leyfir það afléttingu hafta (Forseti hringir.) en eingöngu ef skilyrðin eru uppfyllt, skilyrðin sem eiga að tryggja öryggi efnahagslegs stöðugleika á Íslandi.