144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:29]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur með raunveruleikatenginguna, það var ekkert slíkt samkomulag gert, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, aldrei nokkurn tíma. Hann svarar ekki spurningunni. Þetta hefur áhrif á framvindu málsins í þinginu. Það þarf mögulega að skoða það hvort ekki sé ástæða til að gera hlé á þingfundi til að þingflokksformenn geti farið yfir stöðu málsins ef það er raunverulega þannig að formaður umhverfisnefndar, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, líti svo á að hann sé ekki bundinn af samkomulagi um þinglok. Ég bið hann um að svara þeirri spurningu vegna þess að það hefur raunveruleg áhrif á framvindu þessa máls og hversu langan tíma það tekur hér í þinginu þegar 36 tímar eru þar til lögin sem fresta á taka gildi.