144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að kvarta yfir vinnuálagi í fjárlaganefnd, ég sagði einfaldlega að það hefði verið mikið að gera hjá nefndinni og það er bara gott mál, þannig að mér fannst þetta svolítið ómaklegt.

En mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort hún sé sammála mér í því að þessi áætlun sé frekar eða mjög óljós á köflum. Það eru engir rammar. Það er ekki verið að setja ramma utan um málaflokka eða jafnvel bara ráðuneyti sem gæti verið góð leið til að hjálpa til við fjárlagagerðina sem stendur yfir núna og fjárlagafrumvarpið sem við fáum í hendur í haust, að búið væri að ákveða hversu mikið fer í menntamálin, heilbrigðismálin og þar fram eftir götunum. Ég skildi það þannig að það ættu að vera rammar í þingsályktunartillögunni, sem varð svo ekki. Mér finnst þetta of óljóst plagg, en væri forvitin að vita hvort hv. þingmaður er sammála mér.

Mér finnst líka óþægilegt ef við getum ekki planað tvo mánuði fram í tímann eins og kemur fram í þessu máli, hvernig ætlum við þá að fara að því að vinna í anda laganna um opinber fjármál þegar þau taka gildi? Þar er beinlínis kveðið á um að við horfum fram í tímann, að við séum með áætlanir sem standast fimm ár fram í tímann jafnvel. En hér erum við með plagg sem er í rauninni orðið næstum því úrelt nokkrum vikum eftir að það er lagt fram. Það finnst mér ekki gott.