144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir andsvarið. Ekki var létt að mæla fyrir nefndarálitinu í fjarveru hv. þm. Haralds Benediktssonar, sem er mikill sérfræðingur í þessum málum og okkar besti maður, en ég hljóp nú í skarðið. Ég hef reyndar látið hafa það eftir mér að auðvitað er erfitt fyrir þingmenn að standa hér og taka ákvörðun um hvers konar fósturvísa eða sæði eigi að flytja til landsins. Við erum náttúrlega ekki neinir sérfræðingar í því. Við höfum hlustað á það góða fólk sem fyrir nefndina kom og gaf okkur ráð.

Þetta er niðurstaða meiri hlutans varðandi fyrirspurnina um nýtt kúakyn, og þá verð ég eiginlega líka að vísa því til þeirra sérfræðinga sem komu til nefndarinnar, að þeir urðu auðvitað að gefa okkur vit í því. Ég hef sagt það áður hér í þessum sal að í svona málum, erfiðum málum, er það auðvitað bara sérfræðinga að vinna í og fá niðurstöðu. Og auðvitað þurfti bændastéttin að vera samtaka um það hvaða leiðir átti að fara í þessum málum en ekki láta okkur hér í þinginu sitja uppi með þann jóker að klára málið. Ég held að aldrei verði nógu varlega farið í þessu. Eins og fram kemur í álitinu eru helstu verðmæti íslensks landbúnaðar hreinleikinn og við þurfum að halda honum vel til haga. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir framtíðina að hér sé hreint kjöt án sjúkdóma og án nokkurrar lyfjanotkunar, eða lítillar, sem íslenskur landbúnaður og fiskræktun og fleira er náttúrlega þekkt fyrir. En það er nú kannski þunnt svarið sem ég gef þessum góða þingmanni, en af bestu getu.