144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

innflutningur dýra.

643. mál
[18:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um innflutning á erfðaefnum holdanautgripa. Við vinstri græn teljum að það sé mikil áhætta fyrir íslenskan landbúnað að flytja inn erfðaefni, hvort sem um er að ræða fósturvísa eða sæði, og teljum að ekki eigi að taka slíka áhættu enda mikil hætta á smitsjúkdómum hjá íslensku búfé sem hefði ófyrirséðan skaða í för með sér.

Benda má á að hagsmunir allra bænda eru undir, ekki aðeins þeirra sem hyggjast stunda nautgriparækt. Við teljum að það eigi eftir að fara fram lýðræðisleg umræða um þessa hluti, efni frumvarpsins, og verið sé að fara allt of geyst í þessi mál. Við leggjumst ekki gegn því að gerðar verði kynbætur á holdanautgripum á Íslandi, en ef af því verði þá verði að mæta öllum öryggissjónarmiðum varðandi smitsjúkdómahættu.