144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

störf þingsins.

[10:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma hingað upp og taka undir með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur sem hefur lýst áhyggjum af stöðunni í heilbrigðiskerfinu. Mér finnst óþægilegt, ég verð að viðurkenna það, að vera að fara í sumarleyfi, sem fyrirséð er að við þingmenn hefjum bráðlega, án þess að vita með hvaða hætti menn ætli að bregðast við þeirri stöðu. Nú hafa að minnsta kosti 200 hjúkrunarfræðingar, sem allir eru meira og minna sérhæfðir á ákveðnum sviðum, sagt upp störfum auk þess sem fleiri heilbrigðisstarfsmenn innan spítalans, sem eru innan BHM, hafa einnig sagt upp störfum, þannig að þetta eru hátt á þriðja hundrað manns. Þetta er eftirsótt starfsfólk sem hefur möguleika á að starfa úti um allan heim, sérhæft framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólk. Ég hef af þessu miklar áhyggjur og við í Samfylkingunni höfum það.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það ekki í lagi að Alþingi Íslendinga hafi ekki enn fengið einhvers konar skýrslu eða yfirlýsingu frá hæstv. heilbrigðisráðherra, hvað þá sérstakar umræður sem óskað hefur verið eftir um þetta mál af hálfu Pírata. Áhyggjurnar af þessu eru því þverpólitískar.

Ég vildi óska eftir því við forseta að við fengjum umræður um þetta vegna þess að það er ekki bara það að svona stórir hópar hafi sagt upp störfum, heldur þarf líka að vinna upp þá biðlista sem orðið hafa vegna verkfalla og kjaradeilna hjá þessum hópum. Þetta er risamál, mun kosta töluverða fjármuni að vinna þetta upp. Ríkisfjármálaáætlun gerir ekki ráð fyrir mikilli hækkun launa hjá opinberum starfsmönnum, þannig að staðan er í mjög miklum hnút. (Forseti hringir.) Við þurfum að horfa á þetta af alvöru vegna þess að þetta er alvarleg staða.