144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ánægjuefni að okkur hafi tekist hér í málefnalegri umræðu, sem tók því miður allt of langan tíma í þingsölum í vetur, að sannfæra stjórnarmeirihlutann um að það samrýmdist ekki góðum stjórnsýsluháttum og væri ekki í samræmi við lærdóminn af fiskistofumálinu alræmda að gefa ráðherra fyrirvaralausa ótakmarkaða heimild til þess að ákveða staðsetningar opinberra stofnana. (Gripið fram í: Af hverju ekki?) Hér er kallað fram í: Af hverju ekki? Ja, vegna þess að umboðsmaður Alþingis hefur talið að slíkt samrýmist ekki íslenskum lögum. Hann hefur lagt áherslu á að það þurfi undirbúning fyrir slíka ákvörðun, efnislegan undirbúning.

Þess vegna er það fagnaðarefni að við skulum hafa fengið stjórnarmeirihlutann til þess að fallast á þá breytingu að hér þurfi að koma fram þingmál á Alþingi áður en slík ákvörðun verður tekin. Eftir stendur að í frumvarpinu eru ýmis atriði sem eru gagnrýniverð. Við höfum sérstakar athugasemdir við að verið sé að leggja niður grunn fyrir siðanefndir í stjórnsýslunni og munum þess vegna ekki styðja málið í heild sinni.