144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og þakka honum einnig fyrir samstarfið í vetur og ekki síst í þessu máli sem hefur verið mjög flókið og kallað á marga fundi og miklar rekistefnur. En þetta er góð spurning, sem svarið er kannski ekki alveg augljóst við, og mikilvægt að velta fyrir sér að fólk ber saman þennan skatt og þær hugsanlegu tekjur sem gætu í mesta falli komið af skattinum og síðan ef öll slitabú mundu greiða hann og svo þau stöðugleikaframlög sem hafa verið rædd í þeim hugmyndum stærstu kröfuhafa til að uppfylla stöðugleikaskilyrðin.

En stöðugleikaframlagið er bara einn þáttur af sex sem þessum slitabúum býðst að nota til að uppfylla skilyrðin. Skilyrðin eru ekki hugsuð, eins og hv. þingmaður nefndi, til að afla ríkissjóði tekna heldur til að hlutleysa slitabúin gagnvart greiðslujöfnuði, lífskjörum og gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Þau hafa sem sagt ekki neikvæð áhrif á lífskjörin, ekki neikvæð áhrif á gjaldeyrisforðann og ekki neikvæð áhrif á greiðslujöfnuðinn. Það er hlutverk verkefnisins og hugsanlegt fyrir þessi bú hvert um sig að nota þessar sex mismunandi leiðir, þ.e. stöðugleikaframlag sem getur falið í sér afkomu skiptasamninga, skilyrt skuldabréf, framsal krafna, endurfjármögnun lána, lengingu í innstæðum, þetta eru mjög margir og flóknir leggir. En það sem ég held að sé mikilvægast í þessu, aðalatriðið er að við erum að skapa forsendur fyrir því að hér sé hægt að afnema höftin. Þetta eru ekki tekjuöflunaraðgerð heldur forsendur til að hér sé hægt að afnema höft í samfélaginu og það áður en nokkur undanþága verði veitt þessum aðilum frá höftum, það er mjög mikilvægt og er áréttað í nefndaráliti nefndarinnar, og verða þessar undanþágur kynntar og efnahagsáhrif þeirra fyrir nefndinni.