145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var sannarlega athyglisverð ræða hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra — og sorgleg. Það er sorglegt viðhorf að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra telji það vera lið gegn því að bótavæða samfélagið að halda öryrkjum, öldruðum og þeim sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga, undir lágmarkslaunum og gefa í skyn að verið sé að halda fólki á bótum og að það velji frekar að vera á bótum. Öryrkjar eiga margir hverjir ekkert val, þeir eiga ekkert val. Það er skylda ríks samfélags að standa þannig að málum að þeir sem meira hafa á milli handanna gefi eftir getu og þeir sem þurfa á þjónustu að halda þiggi þá eftir þörfum. Er það þá í lagi að öryrkja sem misst hefur starfsgetu sína og fær hvergi vinnu, sé haldið á lægri bótum en sem nemur lágmarkslaunum? Hvað er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að meina? Er þetta hjartað í velferðarstefnu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar? Ég er hrædd um að við þurfum að taka þá umræðu þegar við höfum betri tíma og reyna að fá hæstvirta ráðherra í ríkisstjórn Íslands til að líta með öðrum augum á þá sem þurfa á þjónustu samfélagsins að halda, og með þýðara hjartalagi.