145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil enn ekki stefnu Samfylkingarinnar en skýringin er kannski sú að ég skil ekki alltaf þann flokk. Miðað við ræðu þingmannsins er það stefnan að bætur eigi ekki að fylgja lágmarkslaunum en samt er því haldið fram að núna eigi þær að gera það og er það væntanlega vegna þess að Samfylkingin ber ekki ábyrgð á fjárlögunum. Bætur voru skertar á síðasta kjörtímabili, í tíð vinstri stjórnarinnar. (Gripið fram í.) Vissulega er það þannig að við lifðum erfiða tíma og það þurfti að taka á í ríkisrekstrinum, en það eru gerðirnar sem tala og andinn og hjartað sýndi hver stefnan var þá hjá Samfylkingunni. Það er kannski búið að skipta um hjarta í Samfylkingunni, ég spyr.

Hæstv. forseti. Það er ljóst að þessi andsvör og sú ræða sem hefur verið flutt kalla á frekari umræðu um þessi mál í þingsalnum og ég geri ráð fyrir því að hún fari fram hér síðar í dag. Staðreyndirnar tala sínu máli. Bætur eru að hækka umtalsvert, (Gripið fram í: Allt of lítið.) bætur eru að hækka meira en dæmi eru um í sögunni. Það er staðreynd málsins, það er það sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggur til. Ég hvet hv. þingmenn alla til að fagna því að sú stefna birtist í fjárlagafrumvarpinu og fagna þeim árangri sem við höfum náð í stjórn efnahagsmála.