145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt. Sú staðreynd að hæstv. fjármálaráðherra situr einmitt í ráðherranefndinni segir okkur að þeir sem taka ákvarðanir varðandi það hvað hlutirnir kosta eru með í ráðum þegar verið er að ræða þessi málefni. Þannig liggur þetta.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að kúfur er á þessu ári og það er kúfur sem við sáum ekki fyrir. Umsóknir hælisleitenda eru mun fleiri en gert var ráð fyrir og í ágúst varð mikil aukning. Nú í haust erum við að sjá fjöldatölur sem við gerðum ekki ráð fyrir og ljóst er að bregðast þarf við því. Í ágúst var að sjálfsögðu búið að skrifa það fjárlagafrumvarp sem við ræðum í dag, þannig að í fjáraukalögunum verður að mínu viti að fara sérstaklega yfir þau mál er varða hælisleitendur.

Það er svo annað mál hvað varðar nýtingu á því fé sem fer í þessi mál. Ég tel að það þurfi að skoða hvernig stýring á þessum málaflokki er. Við erum með málefni kvótaflóttafólks og síðan hælisleitenda í tveimur ráðuneytum. Að mínu viti, eftir því sem ég hef rannsakað, þá er það ekki þannig annars staðar á Norðurlöndum. Það getur vel verið að það sé ágætt í einhverjum tilfellum en það má ekki þýða það að við séum að tvívinna hlutina, að við séum til dæmis að hanna kerfi til að skoða bakgrunn og safna saman upplýsingum á tveimur stöðum. Það er ekki góð nýting á skattfé og það eigum við ekki að gera.

Ég vona svo sannarlega að þetta kerfi allt saman verði liðugra þannig að við fáum sem mest fyrir það fé sem við leggjum í málaflokkinn.