145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að nota mjög vel þær fimm mínútur sem við, almennir þingmenn, höfum til umræðu um fjárlög. Ég vil fyrst segja að það er mjög ánægjulegt og jákvætt það sem fjárlögin sýna hvað varðar niðurstöðu og starfsemi ríkissjóðs. Þó að okkur greini á um hvernig deila á út fé er það þannig að frá hruni hefur okkur tekist, bæði síðustu ríkisstjórn og þessari sem nú situr, að vinna á þeim mikla vanda sem þá skapaðist í fjármálum ríkisins. Þess vegna finnst mér mjög hjákátlegt þegar hæstv. forsætisráðherra talar í stefnuræðu sinni eins og allt jákvætt sem gerst hefur hafi bara gerst frá og með apríllokum 2013 þegar hann var kosinn forsætisráðherra. Svo er ekki, við skulum hafa það í huga.

En ég ætla líka að segja að það er að mörgu leyti vel haldið á málum hér en ágreiningur er um skiptingu fjárins. Mér finnst það ekki boðlegt og hef ekki fengið fullnægjandi skýringu ríkisstjórnarinnar á því af hverju aldraðir og öryrkjar fá ekki hækkanir í samræmi við hækkanir almenna vinnumarkaðarins alveg frá 1. maí sl., það bíður til 1. janúar. Ég ætla ekki að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í það nú vegna þess að það hefur verið rætt í dag. Ég fagna því hins vegar að veitt sé fé til að byggja félagslegt húsnæði. Ég hefði viljað ræða það betur en vil bara segja eitt: Ég ætla að vona að ekki verði byggðar stórar íbúðir heldur litlar íbúðir, íbúðir sem vantar á markaðinn, með lægri byggingarkostnaði og þar af leiðandi lægri leigukostnaði eða lægri útborgun til kaupa.

Þá ætla ég að snúa mér að því á síðustu þremur mínútunum sem ég hef í ræðustóli að fjalla um samgöngukafla fjárlaga eins og ég hef oft gert. Þar mundi ég vilja eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra og heyra skýringar hans ef hann gerði það í stuttu andsvari. Þar sýnist mér enn einu sinni vera sett fram áætlun sem er nánast bara til að halda starfseminni gangandi. Sáralítið er af nýframkvæmdum, ef nokkuð. Verið er að fjármagna ýmis verk og ber ekki að þakka fyrir það vegna þess að það er skylda ríkisstjórnarinnar að standa við samninga sem síðasta ríkisstjórn gerði og allar þær samgönguframkvæmdir sem þá hófust sem nú er verið að framkvæma. Meðal annars á að vígja veg á sunnanverðum Vestfjörðum á morgun sem samþykktur var á samgönguáætlun að mig minnir 2010 og var boðinn út 2012. Síðan er fjallað um framkvæmdir við Norðfjarðargöng en annað ekki þannig að á tveggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar er því miður ekki hægt að benda á eitt einasta nýtt atriði nema smálagfæringar á vegarköflum. Annað er ekki nýtt, annars er bara verið að framfylgja stefnu og samþykktum síðustu ríkisstjórnar og eftir atvikum allra flokka á Alþingi sem að þeim stóðu þó að þeir hafi stundum setið hjá eða verið á móti.

En mig langar að spyrja: Af hverju er þetta gert? Er það leið ríkisstjórnar til að slá á hugsanlega þenslu að ráðast á þennan þátt framkvæmda ríkissjóðs? Það er ekki hægt að mínu mati vegna þess að fjölmargir staðir á landsbyggðinni eru enn þann dag í dag þannig staddir að þangað eru ekki greiðar samgöngur eins og krafist er árið 2015. Það gengur ekki. Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Af hverju er ekki meira fé veitt í þau mál en raun ber vitni? Ég les það að 800 millj. kr. framlag er til að mæta auknum kostnaði við vetrarviðhald, m.a. út af loftslagsbreytingum, auknum kröfum og meiri umferð. Það eru hlutir sem verða að vaxa eins og annað.

Hér er sett inn fjárveiting vegna viðbótarkostnaðar við Bakka á Húsavík. Er það tekið af öðrum samgönguframkvæmdum? Það var ekki meining síðustu ríkisstjórnar. Þannig má lengi telja.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í eitt. Hér er fjallað um framkvæmdir við Norðfjarðargöng og eftir nokkra daga, 15 daga að ég held, verður loksins slegið í gegn hvað varðar Norðfjarðargöng. Hér er fjallað um að það þurfi 3 þús. millj. kr. á næsta ári og að eftir árið 2017 standi eftir 1.500 millj. kr. Nú er mikil umræða fyrir austan um það hvort hægt sé að flýta því verki um eitt eða hálft ár þannig að taka megi göngin í notkun haustið 2016 áður en vetur gengur í garð og þá þurfi menn ekki að klöngrast um Oddsskarð. Kemur það til greina hjá hæstv. fjármálaráðherra að heimila Vegagerðinni, ef þetta er framkvæmanlegt, að flýta þessari framkvæmd þannig að taka megi göngin fyrr í notkun?

Síðan langar mig líka að spyrja: Af hverju eru skornar niður 500 millj. kr. til framkvæmda við flugvelli á landsbyggðinni (Forseti hringir.) sem settar voru inn fyrir 3. umr. um gildandi fjárlög? Af hverju er það skorið niður núna? Á ekki að fara meira í viðgerð á flugvöllum sem fjársveltir hafa verið í langan tíma?