145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst fyrirkomulag umræðunnar hérna ágætt en tíminn þó heldur stuttur, sérstaklega fyrir hæstv. ráðherra sem svarar skýrt og nýtir tímann vel en það dugir ekki til. Alltaf kemur bjallan löngu áður en raunverulega er búið að segja allt sem segja þarf.

Fyrst vil ég nefna að það er mjög jákvætt að framlög til Persónuverndar séu ekki lækkuð. Þau voru hækkuð í kjölfar Vodafone-lekans á sínum tíma og er mjög jákvætt að sjá að það gengur ekki til baka eins og maður hefði kannski búist við. Ég ætla ekki að fjalla um hælisleitendur, hv. 4. þm. Reykv. n. gerir það ágætlega hér á eftir og einnig munu fleiri þingmenn ræða það. Í sambandi við umræðuna um Útlendingastofnun og hælisleitendur finnst mér mikilvægt að halda því til haga að þegar kemur að stofnun eins og Útlendingastofnun er mikilvægt að hafa tiltölulega vel launað starfsfólk sem býr við atvinnuöryggi og telur sig vera þarna vegna þess að það er metið að verðleikum. Þarna starfar fólk sem fer með ofboðslega viðamikil réttindi fólks, nefnilega réttinn til að vera til á landinu og það felur auðvitað í sér öll þau réttindi sem felast í því að vera hér, svo sem ferðast, tala o.s.frv. Mér finnst mjög mikilvægt að fólk sem meðhöndlar frelsissvipta einstaklinga eða fólk sem hefur mikil réttindi þar sem miklir hagsmunir eru í húfi sé vel launað að staðaldri, óháð álagi.

Vel á minnst þá vil ég nefna sérstaklega Fangelsismálastofnun. Hér kemur fram að útgjöld til málaflokksins dragist saman um 11,5 millj. kr. Nú er það þannig, þetta heyri ég frá föngum, fangavörðum og fólki innan fangelsiskerfisins, að fangelsiskerfið þolir ekki meiri niðurskurð. Þetta er komið á þann stað að fjársveltið ógnar öryggi fanga og fangavarða. Ég legg til að þegar fólk meðhöndlar frelsissvipta einstaklinga, er illa launað og vinnur við mikið álag þar sem veikindadagar eru nýttir í auknum mæli vegna álags, geti það haft mjög alvarlegar afleiðingar. Þreyttir og pirraðir einstaklingar sem upplifa sig ekki metna að verðleikum og upplifa sig ekki í stöðu til að sinna starfi sínu hvað best, það er alltaf hætt við því að upp úr sjóði á einhverjum tímapunkti, sérstaklega þegar menn eru að ræða mál eins og málefni fanga. Mér finnst því gríðarlega mikilvægt að hækka framlög til málaflokks fangelsismála, í það minnsta falla frá auknum niðurskurði.

Nú veit ég að Hólmsheiðarfangelsið mun væntanlega draga úr álagi en það er ekki komið í notkun, við erum ekki á þeim stað enn þá. Ég legg því til að við drögum úr aðhaldskröfunni og einbeitum okkur að henni eða tökum hana aftur til greina þegar við erum komin á þann stað að álagið er ekki svona gríðarlega mikið á starfsfólki Fangelsismálastofnunar og öllum þeim sem að þessu koma. (Forseti hringir.)

Nú hef ég ekki meiri tíma og lýk því máli mínu.