145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Varðandi NPA vil ég segja að ég óska eftir svörum um það hve marga samninga ráðherra er að tala um. Eru það 61 eins og stefnt var að eða eru það færri samningar sem hún ætlar að fjármagna með þessu, fyrir hönd ríkisins? Hins vegar vil ég vita hvort gert sé ráð fyrir kjarasamningsbundnum hækkunum í þessari fjárveitingu, því að annars þýðir þetta skerta þjónustu í NPA.

Varðandi bifreiðastyrkinn er það náttúrlega svo að ráðherra verður að sinna öllum sínum málaflokkum. Það er ekki hægt að segja að af því að lífeyrisbætur almannatrygginga séu að hækka þá þurfi ekki að hækka bifreiðastyrk, það kaupir enginn sérútbúinn bíl fyrir hækkun sem nemur kannski til 5–10 þús. kr. á lífeyri mánaðarlega. Það er ekki hægt að afgreiða það mál á þennan hátt. Ég spyr: Hyggst ráðherra hrinda þessum tillögum í framkvæmd? Og hvenær ætlar hún þá að gera það?

Varðandi húsnæðismálin eru vaxtabæturnar að lækka að raungildi. Skuldirnar hafa lækkað en þær hækka ekki til þeirra sem eiga rétt á þeim því að þær fylgja ekki verðlagi, þök og allt slíkt.

Varðandi leigumarkaðinn er vissulega verið að leggja til breyttan stuðning og aukinn en það er framboðið af húsnæði sem er stóra vandamálið. Það vantar aukið framboð af leiguhúsnæði og við því þarf að bregðast. Þar voru lagðir til stofnstyrkir sem ráðherra hefur nú ákveðið, með Sjálfstæðisflokknum, að gera allt að styrkjum inn í félagslegt kerfi. Við í Samfylkingunni viljum almennan leigumarkað fyrir alla óháð stöðu þar sem stuðningurinn fer eftir félagslegum aðstæðum, húsnæði er ekki félagslegt í sjálfu sér.