145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:22]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessa umræðu mikið en ætla að fara yfir helstu þætti. Ég vildi aðeins nefna það að mér finnst skrýtin umræðan sem hér hefur verið um húsnæðismál og vaxtabæturnar. Sumir hv. þingmenn tala eins og vaxtabætur séu markmiðið, eins og fólki líði eitthvað betur eftir því sem við hækkum þann þáttinn. Markmiðið með húsnæðisstuðningi, sama hver hann er, gengur út á að hjálpa fólki til að eignast öruggt húsnæði. Ástæðan fyrir því að vaxtabætur eru að lækka er vegna þess að fólk skuldar ekki jafn mikið. Það sýna allar tölur. Það er fagnaðarefni. Það er ekki markmiðið að fólk fái mikið af vaxtabótum. Vaxtabæturnar komu til út af neyð og hafa ekki reynst vel. Þær ýta undir skuldsetningu og skapa ranga hvata. Við höfum verið á fullkomnum villigötum í húsnæðismálum á Íslandi, við höfum verið að ýta undir hátt lánshlutfall, mikla skuldsetningu sem hefur gert það að verkum að þegar áföll verða, hvort sem þau eru hjá einstaklingum og ég tala ekki um hjá þjóðfélaginu í heild sinni, þá er mikill vandi, neikvæð eign í íbúðinni o.s.frv. Við eigum að hafa húsnæðiskerfi þar sem markmiðið er að hjálpa fólki að eignast og vera í öruggu húsnæði. Umræðan er fullkomlega út í hött þegar menn tala um vaxtabætur sem markmið í sjálfu sér.

Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá þá þróun sem felst í því að skuldir heimilanna eru að lækka. Það er það sem við eigum að líta á. Það þýðir að ef viðkomandi einstaklingur eða heimili verður fyrir áfalli þá eru meiri líkur á að hann geti tekist á við það, hann þarf ekki að selja húsnæðið og sitja jafnvel uppi með ekki neitt. Við eigum að ýta undir sparnað, hvetja fólk til að spara áður en það kaupir sér íbúð og hjálpa fólki til að eignast í íbúðinni. Það fólk sem kýs eða getur ekki eignast húsnæði, við eigum sömuleiðis að sjá til þess að það séu til úrræði fyrir það fólk til þess að það geti verið í öruggu húsnæði.

Það er fullkomlega óskiljanleg umræðan hér hjá ákveðnum hv. þingmönnum um að það sé eitthvert sérstakt markmið að allir fái vaxtabætur. Ef hér væri allt í lagi, við værum í einhverri draumaveröld, þá þyrfti ekki neinar vaxtabætur því að vextir væru ekki að sliga fólk. Við erum langt frá því að vera komin á þann stað en við erum hins vegar að fara í rétt átt.

Stóra myndin er þessi: Við erum að lækka skuldir og við erum að lækka gjöld á almenning. Tollar eru fátækraskattur. Tollar og þau gjöld sem sett eru á innfluttar vörur eins og vörugjöldin, sem er sem betur fer búið að afnema, eru fátækraskattur og koma langverst niður á þeim sem eru fátækir. Af hverju? Þeir hafa ekki efni á að fara til útlanda og kaupa ódýrar vörur. Það er gríðarlegt fagnaðarefni að við náum að afnema þessa tolla og þessi gjöld. Það mun líka styrkja verslunina í landinu og ef við styrkjum verslunina í landinu þá erum við að skapa fleiri störf og styrkjum ferðaþjónustuna í landinu því að við erum í samkeppni við útlönd.

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af umræðunni hér vegna þess að ég held að enginn einasti þingmaður hv. stjórnarandstöðu hafi talað um sparnað. Ég held að hver einasti hv. þingmaður hafi talað um útgjöld. Allir tala um útgjöld. Þó svo að við séum að lækka ríkisskuldir, virðulegi forseti, og við séum að fara úr þeirri stöðu að vaxtagjöldin eru ekki lengur hærri upphæð en sem nemur öllum framlögum í Landspítalann og sjúkratryggingar þá eru þau samt 70 milljarðar — 70 þús. millj. kr. sem við greiðum í vexti á hverju ári, alla vega á næsta ári. Þá eru ekki teknar inn lífeyrisskuldbindingar. Árið 2027 verður Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins farinn á hausinn. Þá þurfum við að setja 28 milljarða í viðbót á hverju ári í þann sjóð. Hvað þýðir þetta? Við erum enn þá á þeim stað að við erum skipulega að skerða lífskjör barnanna okkar og barnabarnanna okkar. Það talar enginn um það, enginn. Það eru engin ríkisútgjöld svo aum og svo óþörf að ekki sé slegið varnarskildi um þau, svo mikið veit ég eftir að hafa verið í hv. fjárlaganefnd.

Þegar kemur að þessum þætti þá er það eina sem menn segja: Við þurfum að hækka skatta. Það er bara fólkið í landinu sem borgar þessa skatta. Ef menn halda í fullri alvöru að þeir geti náð í ríkasta fólkið þá hvet ég menn til að skoða DV fyrir nokkrum dögum síðan eða vikum. Þar voru tugir einstaklinga, mjög ríkir, og hvar eru þeir, hvar greiða þeir skatta? Í útlöndum. Mjög ríkt fólk getur valið hvar það býr. Skattbyrðin lendir aðallega á meðaltekjufólkinu sem þarf að halda þessu öllu uppi. En það hefur líka val, það getur líka farið og það gerir það ef við skattleggjum það of mikið. Það er ekkert sanngjarnt eða eðlilegt eða skynsamlegt að skattleggja fólk of mikið, þvert á móti eigum við að skattleggja það hóflega.

Virðulegi forseti. Meiri fjárfestingar í vegamálum, meiri fjárfestingar almennt, í heilbrigðismálum, grunnþjónustu. — Jú, jú, förum bara í það, forgangsröðum í það og gerum það þá. Það þýðir að við þurfum að skera niður annars staðar. Fram til þessa hefur ekki verið neinn pólitískur vilji hjá vinstri flokkunum að fara í þá vegferð.

Hér hefur verið talað um framsetningu fjárlaga og bent réttilega á að hún er ekki góð. Það er meðal annars ekki skýrt hvernig þróunin hefur verið hjá einstökum stofnunum, það er bara ekki skýrt. Reyndar er það þannig þegar maður fer yfir það, það hef ég gert í meiri hluta fjárlaganefndar og reynt að koma þeim upplýsingum áleiðis, þá var á þeim tímum sem menn tala um sem niðurskurðartíma, ég er að tala um hjá síðustu ríkisstjórn, fyrst og fremst tekin niður fjárfesting og það voru teknar erfiðar ákvarðanir í heilbrigðismálum, menntamálum og annars staðar en síðan var stóraukið í eftirlitsstofnanir, undirstofnanir umhverfisráðuneytisins, einstaka menningarstofnanir o.fl. Við þurfum að ræða þessa hluti. Er þetta forgangsröðin sem við viljum? Er þetta forgangsröðin? Hefur niðurskurðurinn í rekstri ríkisins verið svo mikill þegar við skoðum þetta alla leið? Það væri áhugavert að skoða það ef menn skoða það alla leið. Vandinn við framsetninguna á fjármálum ríkisins er að þetta er, eins og hér hefur komið fram, mjög ruglingslegt. Ef menn ætla að fela raunverulega þróun einstakra stofnana og þróun í ríkisútgjöldum, ef það er ætlunin, þá hefur þeim ekki tekist það vel heldur frábærlega.

Virðulegi forseti. Stóra einstaka málið er þetta: Það er ekki kominn tími fyrir eyðslufyllirí, það er ekki kominn tími á það. Það hefur aldrei verið en allra síst núna. Við þurfum að greiða niður skuldir, ríkisskuldir og lífeyrisskuldbindingar. Hér tala menn oft um að okkur eigi að þykja vænt um fólk, vænt um börnin okkar. Sýnum það þá í verki. Forgangsröðum í þá veru að við hugsum til lengri tíma en bara næsta árs og forgangsröðum með þeim hætti að við séum að skapa börnunum okkar betri framtíð. Við gerum það með því að greiða niður skuldir. Við gerum það með því að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar. Ef við ætlum að gera það þá þýðir það að við þurfum að taka annars staðar af. Skoðum þá hvernig þróunin hefur verið í einstökum stofnunum og spyrjum okkur: Er nauðsynlegt að hafa þessa aukningu svo mikla? Skoðum líka hvað viðkomandi stofnun gerir. Er nauðsynlegt að sinna þessu hlutverki ef við viljum í alvöru forgangsraða?

Virðulegi forseti. Ég er til í þá vinnu. Ég vonast til þess að við getum tekið þá umræðu, jafnvel þótt við séum ekki sammála, á grunni góðra upplýsinga, staðreynda. Þó að umræðan hafi um margt verið góð þá hef ég miklar áhyggjur af því að hér var nær eingöngu talað um mikilvægi þess að fara í meiri útgjöld. Það er ekki tími á meiri útgjöld, það er langur vegur frá því. Við eigum mikið eftir þegar kemur að því að greiða niður skuldir og við eigum mikið eftir í vinnu við að forgangsraða í þágu grunnþjónustu. Ég vonast til þess að um það náist samstaða. Ef ekki næst um það samstaða þá vonast ég til þess að við tökum alla vega umræðuna byggða á staðreyndum en ekki tilfinningum.