145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[14:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er rétt sem hér kemur fram að ég hef vakið athygli á því að þegar búið er að gera upp fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga er niðurstaðan sú að ríkið fær ekkert til sín í tekjuskattskerfinu fyrr en laun hafa farið yfir 230 þús. kr. Ég er hins vegar fyllilega sammála hv. þingmanni að þeir sem greiða staðgreiðsluskatta gera ekki allan greinarmun á því hvort skattarnir þeirra enda í sveitarsjóði þar sem þeir hafa heimilisfesti eða hjá ríkinu. Þessu hef ég viljað koma á framfæri til þess að menn hefðu það á hreinu að ef ríkið mundi ganga lengra í því að draga úr tekjuskatti í lægstu þrepunum mundi það fyrst og fremst þýða frekari greiðslu til sveitarfélaganna. Það væri það sem mundi gerast þegar upp væri staðið. Auðvitað getum við hækkað frítekjumörkin, það er hins vegar mjög kostnaðarsöm aðgerð.

Ég ætla bara að segja það um þær áherslur sem birtast í þessu frumvarpi að (Forseti hringir.) þær eru í góðum takti við niðurstöður kjarasamninganna þar sem einmitt var lögð áhersla á að hækka laun lægst launaða fólksins mest. (Forseti hringir.) Þessi tekjuskattsbreyting lokaði síðan þeirri samningalotu með því að koma til móts við meðaltekjufólkið.