145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[14:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst aðeins aftur að fjárfestingunni þannig að það komi skýrt fram. Það sem ber uppi atvinnuvegafjárfestingu á næstu árum eru nokkrar stórar framkvæmdir. Þær eru mjög stór þáttur í hagvexti næstu ára. Við þurfum einmitt að velta því fyrir okkur þegar þær hafa gengið yfir hvernig við högum opinberri fjárfestingu í kjölfarið. Þetta eru mjög gildar vangaveltur og spurningar.

Ég er opinn fyrir öllu mögulegu samráði um verðlagseftirlit. Ég tel að það hafi sýnt sig að vörugjaldalækkuninni hafi smám saman verið skilað ágætlega út í lægra verðlag og hafi líka komið í veg fyrir mögulega uppsafnaða hækkunarþörf. Ég hef tekið eftir því að sumar kannanir hafa sýnt að þetta hafi ekki gerst strax, en þá bendi ég á að það er ekki eðlilegt endilega að þetta gerist á fyrsta degi. Að hluta til kom þetta áður (Forseti hringir.) en vörugjaldalækkunin átti sér stað og menn verða að gæta sín á því í mælingum. Þeir sem halda því fram að þetta muni ekki skila (Forseti hringir.) sér eru að segja að álagningin muni yfir lengri tíma verða hærri. Ég sé enga ástæðu til þess að niðurfelling (Forseti hringir.) neysluskatta muni leiða til almennt hærri álagningar í verslunum, þvert á móti. En þessu þarf að fylgjast með.