145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við notuðum þá nálgun þegar við settum saman þessa tillögu að horfa fyrst á föt og skó og við sáum að það var um helmingurinn af umfanginu í tollum. Svo tókum við alla aðra tolla og settum í seinna skrefið. Ég geri engar athugasemdir við það ef menn við nánari skoðun í þinginu mundu sjá vöruflokka sem væri alveg eins hægt að færa til í tíma.

Eitt af því sem við vorum að horfa til voru verðlagsáhrifin, að láta þau koma jafnt yfir tímabilið. Sumir gagnrýna okkur fyrir að gera þetta þegar verðbólguvæntingar eru aðeins að vaxa en þá bendi ég á að skref ríkisstjórnarinnar eru, þegar allt er saman tekið, tiltölulega lítil miðað við það sem er að gerast á vinnumarkaðinum. Mér sýnist að heilt yfir litið muni laun í landinu uppsafnað 2015 og 2016 hækka um kannski 100 milljarða, en við erum hér að tala um aðgerðir sem eru opinberar upp á kannski 5. Svarið er því að í tollamálunum, og ég er að tala um þau, finnst mér það vel geta komið til skoðunar og ég geri engar athugasemdir við það ef menn sjá ástæðu til að færa gildistöku (Forseti hringir.) einhverra vöruflokka á milli ára ef við náum að öðru leyti markmiðum okkar.