145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[19:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sat nú í einni þeirra ríkisstjórna og ekki bara það, tók þátt aftur og aftur í umræðum í þeirri ríkisstjórn um það hvort menn ættu að beita afgangi og sjóðum ríkissjóðs sem þá hlóðust upp í Seðlabankanum til að greiða niður skuldir sveitarfélaganna. Mönnum finnst kannski hlægilegt í dag að ástandið hafi verið þannig rétt fyrir hrun en svona var þetta.

Hver er mælikvarðinn á það að skattar séu orðnir of háir? Telur hv. þingmaður virkilega að skattar á fyrirtæki, t.d. að tekjuskattur fyrirtækja sé hár? Hann er tiltölulega lágur hér miðað við ýmis önnur ríki í kringum okkur. (BN: Hann er bara eðlilegur.) Tryggingagjaldið er hátt, það er mjög hátt, (BN: Já.) ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. En ég hef líka sagt hér áður í dag að ég tel að þar sé ranglega verið að taka, miðað við forsendur laga, 10 milljarða lágmark, kannski er það komið upp í 12 milljarða núna, af fyrirtækjunum. Til að standa straum af hverju? Atvinnuleysi sem er varla til staðar. Við vitum að á næsta ári, og við erum að gera áætlanir og fjárlög fyrir næsta ár, að það verður komið niður í 2,7–3% og það er í nútímasamfélagi bara hreyfiatvinnuleysi, (Gripið fram í.) þ.e. fólk er að skipta um störf. Það var áður kannski 1–1,5%, þegar ég var kornungur maður þá litum við svo á sem vorum í pólitískri blaðamennsku að 1,5% atvinnuleysi væri eðlilegt, fólk væri að skipta um störf. Í dag gerist þetta miklu hraðar á markaði.

Með öðrum orðum, við erum að innheimta gjald sem nemur tugum milljarða kr. af fyrirtækjunum til að standa straum af atvinnuleysi sem eiginlega er ekki til. En ég ráðlegg hv. þingmanni að fara og gráta við aðrar axlir en mínar í þeim efnum (Forseti hringir.) og þar bendi ég honum kannski sérstaklega á axlir hæstv. fjármálaráðherra sem kemur hér rogginn og gefur engin merki þess að hann ætli með einhverjum hætti (Forseti hringir.) að horfast í augu við þessar staðreyndir.