145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:03]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það að við þurfum að fara mjög varlega í því, alveg eins og hún orðaði það svo ágætlega, að veita þróunaraðstoð á forsendum þess sem veitir en ekki á forsendum hins sem þarf á aðstoðinni að halda. Það sem þar skilur á milli er einmitt fagmennskan.

Þetta er svolítið svipað og í skólakerfinu. Það eru kennararnir og skólastjórarnir sem hafa þekkingu á innri málefnum síns skóla en það eru menntamálayfirvöld sem setja stefnuna á það hvernig almennu skólastarfi skuli háttað í landinu. Eins og er með útgerðina og skipstjórann. Það verða alltaf að vera ákveðin skil þarna á milli og það er hættulegt þegar hið pólitíska vald ætlar aftur að fara að ganga til baka og rjúfa þessi skil, taka innri málefni stofnana, fagþekkingu og annað sem þar hefur byggst upp og breyta því í einhver pólitísk hrossakaup á einhverjum allt öðrum forsendum en hafa kannski verið viðurkenndar forsendur fyrir starfinu fram að því.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ekki, að mínu viti, heillavænleg þróun. Ég tel að full ástæða sé til að varast þetta mál, sporin hræða í raun og veru. Við höfum séð viðleitni af þessu tagi í íslenskri stjórnsýslu á undanförnum árum og áratugum og því fleiri dæmi um þetta eftir því sem lengra er farið aftur í sögunni. Og það er ekki góðs viti.