145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[12:12]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég held að við séum öll sammála um það að við verðum að reyna að auka þau markmið sem við viljum fá með betrun í fangelsisvist. Einnig viljum við reyna að fækka þeim endurkomum sem eru meðal íslenskra fanga, sem sagt að þeir fari aftur í fangelsi að fyrri afplánun lokinni.

En til að við getum náð þeim árangri þurfum við að stuðla að aukinni betrun innan veggja fangelsisins og eftir að fangar hafa lokið afplánun sinni. Í þessu samhengi langar mig að minnast á þingsályktunartillögu sem hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir er fyrsti flutningsmaður að, auk annarra þingmanna, sem fjallar um að tryggja föngum sem uppfylla ákveðin skilyrði ákveðna framfærslu eða atvinnuleysisbætur eftir að refsivist lýkur.

Slík umræða fer misvel í fólk, að veita eigi föngum þau réttindi. En viljum við ekki frekar tryggja þeim ákveðna framfærslu ef þeir uppfylla skilyrðin í stað þess að þeir reyni tekjuöflun með einhverjum öðrum eða vafasömum hætti?

Ég fagna orðum hæstv. innanríkisráðherra, Ólafar Nordal, um þá vinnu sem er í gangi innan ráðuneytisins um endurskoðun á þeim fullnustuaðgerðum sem eru í gangi í dag. Ég tel meðal annars vegna þeirra löngu biðlista sem við sjáum í dag, um það bil 400 manns eru á biðlista eftir því að ljúka afplánun, að nauðsynlegt sé að skoða nýjar leiðir er varða fullnustu. Við hljótum öll að vera sammála um að það er engin betrun fólgin í því að aðili sem er búinn að vera á biðlista til fjölda ára, kominn á beina braut, sé kallaður inn í fangelsi mörgum árum síðar, því að það getur jafnvel aukið líkurnar á að hann leiðist enn frekar eða aftur út í afbrot. Ég fagna þeirri vinnu sem er í gangi.