145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:07]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég eins og margir aðrir sem hafa tjáð sig um þetta mál hér í þingsal hef verulega miklar áhyggjur af þessari tilraun hæstv. utanríkisráðherra til þess að færa svo mikilvæga stofnun inn í sitt ráðuneyti. Mig langaði bara að spyrja hv. þm. Helga Hjörvar hverjar hann telji að séu raunverulegar ástæður fyrir þessari stjórnsýsluhræringu og hrærigraut. Er það til þess að geta strokað út stofnun og geta státað sig af því að hafa einfaldað stjórnsýsluna? Er það vegna þess, eins og hv. þingmaður benti á, að það er kannski ekkert mjög vinsælt meðal æðstu valdhafa og jafnvel innan æðstu stofnana að embættismenn fái að hafa sjálfstæði? Við vitum að hérlendis er það þannig út af mannfæð að það hefur verið verulega mikið vandamál hversu erfitt það er fyrir mjög marga innan okkar ólíku kerfa, ekki bara embættismenn, heldur líka menn innan háskóla, að geta fengið að sýna sjálfstæði. Meira að segja RÚV hefur verið hótað ef það sýnir sjálfstæði, að það verði tekið af fjárlögum.

Því langaði mig að spyrja þingmanninn hvort hann telji að þessi hrærigrautur og meinta einföldun verði til þess að gera starfið í kringum þennan mikilvæga málaflokk ógagnsærra, ógagnrýnna og hreinlega verra.