145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir orð hv. þm. Willums Þórs Þórssonar þar sem hann segir að mikilvægt sé að taka úr sambandi það vaxtaform sem heimilin búa við þegar fjárfest er í húsnæði og kallast verðtrygging. En það voru nú allt aðrir hlutir sem ég ætlaði að tala um í dag því að mig langar að vekja athygli á að heimasíða verður opnuð í dag sem heitir Ég er Unik.

Um er að ræða verkefni sem hefur þann tilgang að útbúa fræðsluefni fyrir einhverfa einstaklinga með það að markmiði að auka skilning í samfélaginu á hvað einhverfa er og hvernig hún getur birst í mörgum og mismunandi myndum hjá hverjum og einum. Vefsíðan býður upp á þann möguleika að búa til einstaklingsmiðað fræðsluefni sem einhverfir einstaklingar og aðstandendur þeirra geta sett saman. Þeim upplýsingum er hægt að koma saman í litla bók eða inn á rafrænt form sem hægt er að dreifa til skóla, vinnufélaga, ættingja og vina, svo eitthvað sé nefnt.

Vefsíðan er án efa til mikilla bóta fyrir einhverfa einstaklinga og aðstandendur þeirra. Það er nú svo að mikið vantar upp á skilning í samfélaginu á því hvað einhverfa er og hvernig hún birtist í mismunandi myndum hjá hverjum og einum. Það getur nefnilega tekið mikið á fyrir einhverfan einstakling og fjölskyldu hans að þurfa stöðugt að útskýra aftur og aftur hvernig einhverfan birtist. Að geta afhent litla bók eða dreift upplýsingum, jafnvel á rafrænan hátt, getur minnkað það álag. Ef álag og áreiti minnkar þá eru miklar líkur á því að það hafi jákvæð áhrif á líðan einstaklingsins og það er það sem skiptir öllu máli í þessu samhengi. Við viljum öll stefna að því að öðlast betri líðan og betri lífsgæði. Einhverfurófið er mjög vítt og misjafnt, einkenni geta verið mjög væg upp í að vera mjög áberandi.

Ég vil hvetja þá sem hafa áhuga á verkefninu að fara inn á síðuna Ég er Unik og kynna sér málið. Vefsíðan fer í loftið kl. 18.00 í dag. Ég vil fagna þessu framtaki sem hefur loksins orðið að veruleika og ég trúi því að það muni gagnast fjölda einstaklinga.


Efnisorð er vísa í ræðuna