145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hef áhyggjur af ferðaþjónustunni og þróun hennar hér á landi og andvaraleysi hæstv. ríkisstjórnar um málaflokkinn.

Ferðaþjónustan er á stuttum tíma orðin stærst af öllum þeim greinum sem skapa okkur gjaldeyri og stærri en bæði sjávarútvegurinn og stóriðjan hvað það varðar. Viðbrögð stjórnvalda við þessum öra vexti hafa verið algjörlega óviðunandi. Það er eins og þau vilji ekki læra af reynslunni.

Við erum rétt að sleppa frá mestu vandræðunum eftir fall bankakerfisins, sem fékk að vaxa okkur langt yfir höfuð, og við erum brennd af reynslu vegna uppbyggingar og falls loðdýraræktar og fiskeldis hér á árum áður. Nú horfum við á ferðaþjónustuna vaxa þannig að því fylgja miklar breytingar á samfélaginu og efnahag.

Vissulega er margt vel gert af fyrirtækjum í ferðaþjónustunni en framleiðni er hér ekki nægileg og bent hefur verið á að vegna þess getum við ekki staðið undir launahækkunum. Ný störf eru flest í ferðaþjónustunni og virðisauki af þeim er ekki mikill þannig að framleiðnivandinn leysist ekki með þeirri viðbót og að mestu er um láglaunastörf að ræða.

Fjárfestingar í ferðaþjónustu eru miklar, hótel rísa út um allt land en sú fjárfesting er ekki reiknuð í fyrirtækjafjárfestingu í efnahagsforsendum fyrir fjárlagafrumvarpið. Margt getur haft áhrif á fjölda ferðamanna sem nota eiga hótelrýmin á næstu árum. Eitt af því er staða krónunnar sem er að styrkjast þessa dagana. Skortur á stefnumótun, greiningum og áætlanagerð er hrópandi af hálfu stjórnvalda og auk þess vex greinin í rekstrarumhverfi sem aðrar atvinnugreinar geta ekki keppt við.

Ef illa fer, virðulegi forseti, mun almenningur greiða kostnaðinn og stjórnvöld verða að fara að ranka við sér því að vanræksla þeirra í málaflokknum getur orðið okkur dýr.


Efnisorð er vísa í ræðuna