145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

uppbygging innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

133. mál
[18:37]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Hefðum við getað á árinu 2003 séð fyrir verkefni ársins í ár þegar kemur að uppbyggingu innviða ferðamannastaða og varðveislu menningarsögulegra minja? Það lagafrumvarp sem við fjöllum um hér gerir ráð fyrir því að við búum til áætlun um það hvað við ætlum að gera eftir 12 ár. Þetta er sem sagt 12 ára áætlun um uppbyggingu, verkefnaáætlun sem vinna á í samráði við ráðherra sem fara með ferðamál, þjóðlendumál og menningarminjamál.

Ég er ekki viss um að við hefðum getað séð svo fram í tímann að við hefðum getað áttað okkur á því árið 2003 í hvaða stöðu við yrðum á þessu ári. Ég er ekki einu sinni viss um að við hefðum getað áttað okkur á því fyrir tveimur árum í hvaða stöðu við yrðum núna þegar kæmi að straumi ferðamanna. Samt var það þó þannig að það glitti í verulegan vöxt. Vöxtur á streymi ferðamanna hafði verið gegnumgangandi 9% á ári og tók síðan skyndilega kipp 2011/2012 og hefur síðan verið um 20% árlegur vöxtur.

Ríkisstjórnin sem leggur fram þetta mál núna lagði líka fram á síðasta vetri mál um náttúrupassa, ásamt þessu máli. Byrjað var að undirbúa bæði þessi mál sumarið 2013 þegar ríkisstjórnin kom til valda og frá þeim tíma hefur ríkisstjórnin hægt og örugglega náð að forklúðra þessum málaflokki þannig að útlit er fyrir að ekkert muni gerast í þessum efnum fyrr en á árinu 2017 ef þetta frumvarp verður að lögum.

Náttúrupassinn var þannig úr garði gerður eftir tveggja ára vinnu í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu að engin stemning var fyrir honum, hvorki í minni hlutanum né meiri hlutanum. Ekki var meiri hluti fyrir honum á þingi og í rauninni var hann borinn þannig fram að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra kepptist við að segja að það hefði ekki verið hennar hugmynd, hún hafði ekki meiri trú á því máli en svo, enda fór það svo að honum var sópað héðan út af drjúgum meiri hluta í þinginu, nánast allra þingmanna. Þetta mál hékk saman við það mál á síðasta þingvetri og hlaut sömu örlög.

Ég er þeirrar skoðunar, eftir að hafa komið að vinnu þessa máls í umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta þingvetri, að þetta sé of flókið, of viðamikið, of mikil miðstýring og óþarfi sé að fara í svona miklar málalengingar með málaflokkinn. Það er til gamall brandari sem gengur einhvern veginn út á það að maður eigi alltaf að versla við heimamenn, þar sem maður er staddur hverju sinni. Ég held að í þessum efnum eigi það ágætlega við. Ég held að engir séu í jafn góðum færum og heimamenn til meta stöðu náttúrufyrirbrigða, ferðamannastaða, menningarsögulegra minja.

Ég held að það sé mjög einfalt. Ég er í rauninni búinn að skrifa tillögu að breytingum á lögum um sveitarstjórnir sem felur það í sér að sveitarstjórnum sé einfaldlega falið það verkefni að leyfisskylda tiltekna ferðamannastaði ef ástæða þyki til, þannig að þau fyrirtæki sem fénýta með einum eða öðrum hætti viðkomandi staði greiði af því sérstakt gjald til sveitarfélagsins, enda renni gjaldið til uppbyggingar innviða á þeim stað sem um ræðir. Þetta þýðir að þeir sem eru næstir stöðunum geta tekið ákvörðun um hvort ástæða sé til að innheimta gjald af þeim. Það eru þeir sem bera ábyrgð á þeim stöðum sem koma til með að byggja upp þau mannvirki sem um ræðir. Það eru þeir sem eru nálægt og eru í sveitarstjórnum þeirra svæða sem mundu taka ákvörðun, væntanlega í samvinnu við þau fyrirtæki sem nýta þá staði sér til ábata, um gjaldið sem þyrfti að greiða þeim. Þetta væri auðvitað tímabundið gjald vegna þess að ekki þyrfti að innheimta það nema meðan á uppbyggingunni stæði. Eða hvernig sjá menn eiginlega fyrir sér öðruvísi kerfi? Ætla menn holt og bolt að vera með innheimtu á einhverju sérstöku ferðamannagjaldi?

Annar kostur við þessa útfærslu er sá að í raun og veru greiðir einstaklingurinn sem ferðast einn á bíl sínum, fótgangandi eða á hjóli, ekki neitt, það er frjáls för einstaklinga til að njóta náttúrunnar. Upplifun fólks, þessi frelsistilfinning og upplifum fólks af því að vera í ósnortinni náttúru mundi viðhaldast. Ég held að með einni svona einfaldri breytingu mætti leysa af hólmi bæði verkefni náttúrupassafrumvarpsins og þess frumvarps sem hér um ræðir, vegna þess að hægt væri að tryggja uppbyggingu, hægt væri að tryggja fjárveitingu í uppbygginguna. Það væri að sama skapi í höndum sveitarstjórnar að ákveða hvort fyrirtæki, sem mögulega væri þá að hasla sér völl á viðkomandi svæði, þyldi það að greiða af því einhverja ákveðna auðlindarentu, því að ferðamannastaðir á Íslandi eru auðvitað ekkert annað en auðlindir.

Mér finnst eins og ríkisstjórnin hafi bara ákveðið sumarið 2013 að nú yrði að taka þessi mál föstum tökum, ég er í sjálfu sér alveg sammála því að það varð að gera, og skrifa stóra lagabálka til að svo mætti verða.

Það er vissulega rétt sem fram hefur komið í máli hv. þingmanna sem hafa farið í andsvör við hæstv. ráðherra að gríðarlega mikið regluverk er fyrir. Það er Framkvæmdasjóður ferðamannastaða, það eru hinar og þessar stofnanir, það eru ólíkir umsjónaraðilar opinbers lands, hvort sem það eru þjóðlendur, friðlýst svæði, þjóðgarðar eða einhver svæði sem menn hafa tekið út fyrir sviga með einum eða öðrum hætti.

Ég held að menn þurfi einfaldlega að hugsa þetta upp á nýtt. Þetta kerfi er of svifaseint. Það er einfaldara að setja ábyrgðina heim í hérað, láta þá sem þekkja til bera ábyrgð á innheimtu gjalds og uppbyggingu á stöðunum. Það má nálgast þetta mál á miklu einfaldari hátt en gert hefur verið og með miklu skjótvirkari hætti, vegna þess að það sem er verið að lýsa hér tekur mikinn tíma. Ég er hræddur um að þær aðgerðir sem við mundum sjá í þessari stefnumarkandi landsáætlun, þegar lögin tækju gildi eða þegar hún væri öllu heldur lögð fyrir Alþingi eigi síðar en 1. janúar 2017, það sé allt of seint.

Það eru brýn verkefni sem bíða úrlausnar nú þegar. Ríkisstjórnin verður einfaldlega að átta sig á því að hún fór allt of langa leið að þessu verkefni sem blasti við henni strax á árinu 2013, strax sumarið 2013 þegar hún tók við völdum. Í þeim sömu töluðu orðum og hún hóf vinnu sína tókst henni því miður að taka ranga ákvörðun um hvernig ætti að gera þetta. Þess vegna hefur málinu lítið miðað og kemst hvorki lönd né strönd. Þess vegna er algjört kaos í þessum efnum. Þess vegna ná menn ekki einu sinni að nýta þá fjármuni sem eyrnamerktir hafa verið uppbyggingu hringinn í kringum landið, ekki bara í sumar heldur líka á síðasta ári. Þess vegna hafa menn verið að afgreiða á fjárlögum ár eftir ár, allt þetta kjörtímabil, aukafjárveitingar á fjáraukalögum í lok árs gríðarlegar upphæðir, upphæðir sem eiga sér ekki fordæmi þegar kemur að slíkum ákvörðunum, ákveða upphæðir upp á mörg hundruð millj. kr. Staðan er einfaldlega þannig núna að það liggja mörg hundruð millj. kr. inni ónýttar vegna þess að búið er að klúðra þessum málum.

Ég held einfaldlega að þetta sé staðan. Ríkisstjórnin verður að horfast í augu við það og reyna að rétta þennan kúrs ef hún ætlar ekki algerlega fyrir fullt og fast að bíta höfuðið af skömminni og klúðra þessum málum fullkomlega.