145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[14:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rosalega mikilvægt að aðgengismálin séu alltaf rædd og við í pólitíkinni höldum þeim á lofti. Staðan í mannréttindamálum fatlaðra er einfaldlega með þeim hætti að þeir verða að reiða sig á það að við hér inni séum málsvarar þeirra og að við minnum sífellt á að þar séu hlutir sem þurfi að halda til haga og þar á meðal aðgengismálin. Það gildir vitanlega það sama um eldra fólk. Það er eitt af því sem ég hef bitið í mig að ég ætla að gera hér á meðan ég er á Alþingi.

Það þarf að koma þessu inn í almenna vitund vegna þess að það gerist allt of oft að aðgengismálin verða eftiráredding og þá verða hlutirnir svo miklu dýrari en ef hugað er að þeim í upphafi. Þar koma auðvitað allir fagaðilarnir að, arkitektarnir og þeir sem eiga að hafa þetta í huga. Við þurfum líka að minna þá á það og þetta held ég að við getum sem samfélag vel gert í sameiningu.

Að lokum eitt sem ég finn ekki í þessari upptalningu á atriðum. Það er varðandi það hvernig hv. þingmanni mundi hugnast að fara í aðgerðir til að styrkja leigufélög sem þegar eru starfandi og eru ekki rekin með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi heldur á einhvers konar félagslegum grunni, svo sem Félagsstofnun stúdenta eða Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins, hvort það megi ekki einnig hugsa sér styrki til þeirra til að þau geti haldið áfram að byggja húsnæði fyrir viðskiptavini sína.