145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar aðeins að leggja orð í belg í þessari umræðu þó að ég ætli nú ekki að lengja hana mikið. Ég er hjartanlega sammála flutningsmanni þessarar tillögu um að gjaldmiðillinn og hvernig við ætlum að fara með hann í framtíðinni og hvað við ætlum að gera í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar er eitt stærsta efnahagslega verkefnið sem við eigum fyrir höndum. Ég minnist þess að á ráðstefnu sem ég var á í Háskóla Íslands fyrir ári eða svo var einmitt verið að ræða um slíkt uppgjör.

Eins og við vitum lifum við núna í höftum þannig að það má segja að við séum í gerviumhverfi. Menn hafa gjarnan spurt hvernig hægt sé að aflétta höftunum. Það hefur verið talað um að einungis fyrsta skrefið sé að gera upp þrotabú bankanna sem er núna í gangi. Samt sem áður horfum við fram á að þótt það verði gert, ef það verður gert samkvæmt þessari nauðungarsamningaleið, þá verði krónan í höftum í sex til tíu ár í viðbót. Fólkið í landinu mun lifa áfram við gjaldeyrishöft. Við verðum út af fyrir sig ekki svo mikið vör við það vegna þess að við getum farið til útlanda og fengið gjaldeyri og við getum keypt okkur bíla, það er ekki enn þá svo komið að innflutningsleyfi þurfi fyrir bílum eins og var hér áður fyrr, en við getum hins vegar ekki selt fasteignina okkar ef við viljum og keypt okkur hús í Danmörku. Þannig lifum við í gjaldeyrishöftum og munum gera það um alla framtíð.

Á ráðstefnunni sem ég minntist á áðan var verið að tala um að fyrsta skrefið væri að gera upp þrotabúin. Þá minnist ég erindis sem Ásgeir Jónsson hélt þar. Svo minnist ég samræðna við fólk á eftir. Þá stóð upp úr hjá mönnum, sem er rétt og kom skýrlega fram í máli Ásgeirs, að það að losa bankana og gera upp við þrotabúin væri bara eitt lítið skref vegna þess að vandi okkar fyrir hrun og vaxandi vandi núna væri gengismunurinn og vaxtamunurinn hér og í Evrópu. Það eru aftur farnir að streyma peningar hingað til að leita ávöxtunar í hærri vöxtum, sem betur fer ekki í mjög miklum mæli. Þá verður peningamagn í umferð hér náttúrlega miklu meira, eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson segir.

Ég er nú samt ekki á því, virðulegi forseti, að til að bregðast við því þá búum við til okkar eigin matadorpeninga sem við skiptum hér á milli. Ef við ætlum svo að nota einhverja aðra mynt í utanríkisviðskiptum þá erum við enn á þeirri línu að fyrirtækin séu á einum stað og fólkið svo annars staðar. Við vitum að nú þegar starfa stór fyrirtæki hér á landi með erlendan gjaldmiðil en ekki við. Það hefur verið þannig hér að gengi krónunnar hefur í rauninni miðast við þarfir sjávarútvegsins og þess vegna hefur gengið verið fellt í gegnum tíðina með vissu millibili. Því fylgir, virðulegi forseti, alveg gífurleg eignatilfærsla frá launafólki til þeirra sem eiga fyrirtækin sem eru í útflutningi.

Ég sé ekki að við getum komist hjá því að vera alltaf í þessum öldugangi nema við finnum einhverja lausn á gjaldmiðlinum. Þá held ég að eina lausnin sé að taka upp og vera í skjóli annars stærri gjaldmiðils. Þá hefur fólk gjarnan sagt: Við tengjum okkur bara við evruna. En það gengur ekki heldur, virðulegi forseti. Það hefur líka verið reynt hérna. Ég man nú ekki nákvæmlega hvenær það var, en það hefur líka verið reynt. Hvað gerist? Stjórnmálamenn ákveða að tengja við evruna eða einhverjir bankamenn sem eru ekki stjórnmálamenn en þeir eru menn og síðan kemur upp einhver krísa og þá er svo auðvelt að segja: Nei, við erum hætt við þetta, nú ætlum við ekki lengur að vera tengd við evruna. — Þetta verður ekki fyrr en við verðum orðin hluti af þessari stóru heild og höfum þann stuðning og miklu meira, ekki bara stuðning heldur þann aga sem er af því að vera hluti af öðrum gjaldmiðli.

Nú hefur sem betur fer hefur atvinnulíf okkar breyst mjög mikið og það hvernig við öflum erlends gjaldeyris hefur breyst mjög mikið á síðustu fimm árum. Nú er það orðið þannig að við erum komin með um 25% — álið er heldur lægra. Við erum komin með sjávarútveginn, við erum komin með ferðaþjónustuna og við erum komin með álið. Málið snýst um að við náum að gera atvinnulífið hérna sem fjölbreyttast þannig að það verði auðveldara fyrir okkur að vera hluti af stærra gjaldmiðilssvæði vegna þess að þá miðast ekki allt okkar við aflabrögð og annað slíkt. Þess vegna helst þetta í hendur. Það helst í hendur að gera atvinnulífið fjölbreyttara og þá getum við orðið hluti af stærra myntsvæði.

Eitt sem er mjög gleðilegt er að þegar maður skoðar kökur núna, ég ætla að leyfa mér að kalla það kökur, sem sýna skiptinguna á hvernig við öflum útflutningstekna þá er eitthvað sem heitir „annað“ komið upp í tveggja stafa tölu. Hvað er þetta annað? Það eru tölvufyrirtæki og verkfræðistofur sem vinna í útlöndum. Það er sem sagt þekkingariðnaðurinn. Hann er kominn upp í tveggja stafa tölu og það er mjög merkilegt. Við þurfum að efla það svo að við verðum líkari heiminum í kringum okkur og getum þess vegna verið honum samferða í gjaldmiðilsmálum.

Þetta vildi ég sagt hafa, virðulegi forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að nú er það á hvers manns vörum að helsti vandi íslensks efnahagslífs sé hvað laun séu að hækka mikið á Íslandi. Ég vil bara mótmæla því. Laun hafa verið lág á Íslandi. Enn eru ákveðin laun á Íslandi allt of lág, t.d. lögreglumanna. Þau þurfa að hækka. Við verðum að gera þá kröfu til atvinnuvega þar sem gengur vel að þeir hagræði hjá sér og komi starfsemi sinni í það horf að þeir geti greitt mannsæmandi laun. Hvað varðar hið opinbera þá þarf það að hætta að afsala sér alls konar gjöldum og sköttum til að geta borgað opinberum starfsmönnum almennileg laun.