145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

beiðni um sérstaka umræðu.

[15:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær kvaddi sér hér hljóðs, undir þessum lið, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og vakti athygli á því að hæstv. forsætisráðherra hefði ekki sinnt nú missirum saman beiðni hennar um að ræða verðtryggingu og afnám hennar við hv. þingmann. Það er einfaldlega þannig að við getum ekki sem þingmenn sætt okkur við að forsætisráðherra landsins sinni ekki þeirri grundvallarskyldu ráðherra að eiga orðastað við þingmenn um mál sem þingmenn óska eftir að ræða við þá. Samkvæmt þingsköpum er þessi skylda ótvíræð og hún leiðir beint af eftirlitsvaldi þingsins með ráðherrum sem er skrifað inn í stjórnarskrá.

Ég verð að vekja athygli á því, nú þegar við sjáum dagskrá dagsins, að þar er engin sérstök umræða á dagskrá. Það eina sem er á dagskrá er um póstsendingar sem hæstv. utanríkisráðherra vill bera hér inn frá Brussel í nýjum (Forseti hringir.) aðlögunargerðum. Þá hlýtur maður að spyrja: Af hverju er ekki hægt að koma hér fyrir umræðu af þessum toga, sem lengi hefur verið beðið eftir, og hvar er vilji ríkisstjórnarflokkanna til að ræða efnislega einhver mál hér í þinginu?