145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lýðheilsa er náttúrulega hluti af þessu. Aukin áfengisneysla, upp á fjóra lítra á mann á ári, mun koma inn í heilbrigðiskerfið að nokkrum árum liðnum og kosta þar peninga. En af því hv. þingmaður talaði líka um að mönnum sé refsað fyrir að neyta ólöglegra fíkniefna þá er mönnum líka refsað fyrir að neyta áfengis í óhófi. Ef maður er tekinn hér ofurölvi úti á Austurvelli þá fær hann sekt. Þannig að það gildir það sama þar.

Það var reyndar eitt sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um, af því að hann sagði: Ríkið á ekki að græða á dópsölu. Jú, áfengi er vímuefni, það er alveg hárrétt, en það er ekki einungis arðurinn af ÁTVR sem rennur í ríkissjóð. Það er áfengisgjaldið, sem er stærsti hluti af verði áfengisins sem við kaupum, sem rennur í ríkissjóð og eru kannski megintekjurnar. Vill hv. þingmaður afleggja áfengisgjaldið vegna þess að hann vill ekki að ríkið græði á dópi?