145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[15:45]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslum með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis). Eins og fram kom í fyrri ræðu minni er ég alfarið á móti því frumvarpi sem hér um ræðir. Það hefur ekki breyst á milli þeirra ræðna sem ég hef haldið.

Mikilvægt forvarnastarf hefur verið unnið á Íslandi undanfarin ár og má meðal annars nefna foreldrarölt og ýmsa fræðslu sem hefur verið innan æskulýðsmiðstöðva, í skólum landsins og innan heimilis og skóla. Þetta hefur gert það að verkum að ýmsar tölur sýna okkur að drykkja ungmenna hefur snarminnkað. Það er afar ánægjulegt. Það er ósk mín að við náum að halda í þessar tölulegu staðreyndir og þann raunveruleika sem við okkur blasir nú.

Sumir sem eru fylgjandi frumvarpinu benda á að unglingadrykkja hafi minnkað á sama tíma og vínbúðum hefur fjölgað. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að vínbúðum hafi fjölgað undanfarin ár úr 39 í 49. Það er vert að geta þess að það hefur verið gefið verulega í í forvarnastarfi á sama tíma. Fólk er alltaf að verða meðvitaðra um gildi þess að tala um hlutina.

Nú man ég ekki nákvæmlega en Vínbúðin sjálf hefur staðið mjög framarlega varðandi samfélagslega ábyrgð og verið með mjög greinargóða stefnu er varðar samfélagslega ábyrgð og fengið verðlaun fyrir það sem fyrirmyndarfyrirtæki. Þar eru ákveðin forvarnastefna fólgin í því að láta alla sýna skilríki og síðan hefur verið huldueftirlit, hulduheimsóknir, í kjölfar þess þar sem eftirlitsaðilar koma án þess að gera boð á undan sér til að fylgjast með hvort farið sé eftir þessum reglum. Þær tölulegu staðreyndir sem við sjáum þar um sýna að farið er eftir þessu innan fyrirtækisins. Það er mjög mikilvægt að söluaðili, æskulýðsstarfsemin, heimili og skóli og aðrir aðilar vinni saman að forvörnum. Maður er hræddur um að ef einn aðili dettur úr þessari keðju veiki það forvarnastarfið sem fyrir er.

Í frumvarpinu er talað um, það er vert að geta þess, að greiðslur í forvarnasjóð muni hækka úr 1% upp í 5% prósent. Þá langar mig að lesa upp úr frumvarpinu þar sem segir að fjármagnið eigi að fara inn í ákveðinn lýðheilsusjóð. Í c-lið 31. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Lýðheilsusjóður skal leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna næstu tvö ár eftir gildistöku laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis).“

Þarna er ósvarað hvað gerist að tveimur árum liðnum. Er þessi prósentuhækkun frá 1% og upp í 5% eingöngu ætluð í tvö ár eða er hún til framtíðar? Auk þess var samþykkt þingsályktun sem ég lagði fram hér í þinginu fyrir um það bil einu og hálfu ári síðan um að auka forvarnir til að reyna að minnka tíðni þess að fólk setjist ölvað undir stýri eða undir áhrifum vímuefna. Hún var samþykkt með 54 greiddum atkvæðum í þinginu, þ.e. með miklum meiri hluta, og átti að falla inn í umferðarlög sem voru þá í endurskoðun en hafa ekki náð fram að ganga. Það er einhver stífni í kerfinu, ef maður segir bara alveg eins og er, varðandi að skoða og ganga lengra með þá þætti og á meðan svo er get ég ekki og mun ekki greiða þessu frumvarpi atkvæði mitt og einnig hvað varðar forvarnastarfið.

Ég var í allsherjar- og menntamálanefnd í fyrra þegar umrætt frumvarp var til afgreiðslu í þeirri nefnd og lá mikið yfir því og öllum umsögnunum eins og gengur og gerist þegar maður á sæti í nefndum þingsins. Það er virkilega áhugavert að skoða þær umsagnir sem bárust um málið. Ég hvet alla sem hafa áhuga á málinu að skoða málið frá því í fyrra þegar 60 umsagnir bárust um það. Þær skiptast algjörlega í tvennt þar sem meiri hlutinn, aðilar sem hafa unnið að lýðheilsumálum, unnið innan heilbrigðisgeirans og að æskulýðsmálum, vísar í rannsóknir og ræður þingmönnum frá því að samþykkja frumvarpið og hins vegar umsagnir frá aðilum í verslun og þjónustu sem vilja að við samþykkjum frumvarpið. Ég hvet alla sem hafa áhuga á frumvarpinu að lesa þessar umsagnir. Það er vísað í margar góðar rannsóknir (Forseti hringir.) sem vert er að hafa í huga og ég tíundaði í fyrri ræðu minni um málið.