145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er sjónarmið sem ég skil alveg og ber fulla virðingu fyrir. Þegar hv. þingmaður kemur hér og segir að það sé bara hennar pólitíska hugsjón að ríkið eigi ekki að vera að vasast í einhvers konar sölu get ég alveg skilið það. Og þegar hún talar um einstaklingsfrelsið og þrá sína eftir því að einstaklingur hafi sem mest frelsi og megi haga sér eins og hann vill í þessum málum hef ég skilning á því sjónarmiði, en þá á hv. þingmaður bara að segja það hreint út en ekki láta mig um að draga það upp úr henni í andsvari.

Ræða hv. þingmanns, alveg eins og fyrri flutningsmanna sem virðast a.m.k. sumir vera fullir af hálfgerðum sjálfsefa, jafnvel sjálfssekt í þessu máli, gengur út á að sýna fram á að þetta frumvarp fullnægi öllum ströngum kröfum um lýðheilsu. Það má jafnvel skilja það svo að það sé spor í áttina að frekari lýðheilsu.

Ég vil svo segja það út af fyrri ræðu hv. þingmanns að ég geri engar athugasemdir við að hv. þingmaður geri athugasemdir við að aðrir geri athugasemdir við að þetta að frumvarp sé hér á dagskrá. Þannig hóf hún sína ræðu. Mér er nefnilega alveg sama um það. Ég tel að það sé sjónarmið sem sjálfsagt er að afgreiða hér í heiðarlegri atkvæðagreiðslu. Hv. þingmaður virðist líka hafa svolítið samviskubit yfir því að sitja undir ásökunum um að brennivín í búðir væri helsta baráttumál Sjálfstæðisflokksins. Það er hins vegar þannig að þetta var það mál sem sett var á oddinn af Sjálfstæðisflokknum þannig að okkur er þá vorkunn sem lítum svo á að þetta sé helsta mál þess ágæta flokks.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að einni tæknilegri spurningu. Hún hefur tekið eftir því að við höfum óskað eftir nærveru hæstv. heilbrigðisráðherra. Ástæðan er sú að hann hefur lagt fram vímuvarnastefnuna sem ég vísaði til áður og þar er það markmið að takmarka eigi aðgengi að áfengi. Finnst henni þá ósanngjarnt af okkur að óska eftir því að hæstv. ráðherra komi og segi okkur sem æðsti maður framkvæmdarvaldsins í þessum efnum hvort honum finnist að frumvarpið sé í anda hans eigin stefnu? Er það ósanngjarnt af okkur?