145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

skattar og gjöld á vistvæn ökutæki og eldsneyti.

221. mál
[16:27]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með fyrirspyrjanda að það er mjög brýnt að endurskoða skattumgjörð farartækja hér, bæði farartækja og eldsneytis. Eins og staðan er í dag þá eru gjaldflokkarnir mýmargir, ógagnsæir, og að einhverju leyti hefur komið í ljós að ekki eru allir kostir jafn umhverfisvænir og lagt var upp með. Ég fagna viðbrögðum hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurninni að þessu leyti.

Ég vil um leið hins vegar vara við að menn fari út í og hugsi umhverfismálin á þeim nótum að það þurfi að taka upp einhvers konar neyslustýringu þegar kemur að farartækjum. Það er ekki bara til trafala út frá neytendasjónarmiði, heldur er það líka til þess að hefta þróun á þessu sviði ef neyslustýringin felst í hvers kyns niðurgreiðslum af opinberu fé. Ég minni á t.d. þá lögmætu spurningu sem menn þurfa alltaf að hafa uppi: Hverjir eru raunverulega vistvænir kostir í samgöngumálum?