145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

skattar og gjöld á vistvæn ökutæki og eldsneyti.

221. mál
[16:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra svörin og fyrir umræðurnar sem hér hafa skapast. Mig langar í þessu sambandi að minna á að það er til samráðsvettvangur stjórnvalda og geirans eða iðnaðarins sem heitir Græna orkan og er klasasamstarf um orkuskipti í samgöngum. Það er spurning hvort ekki sé hægt að flýta ferlinu aðeins með því að nýta hann. Fjármálaráðherra á fulltrúa þar, sömuleiðis umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra. Þessir aðilar eru nú þegar í samstarfi um orkuskipti og það má kannski nota það.

Þá langar mig líka að koma aðeins inn á að ég mundi gjarnan vilja að hæstv. ráðherra flýtti þessari vinnu vegna þess að ég tel að hún skipti okkur gríðarlega miklu máli. Ég held að það séu margir í startholunum tilbúnir að leggja þessu máli lið. Þetta snýst ekki um neyslustýringu heldur um það að búa til almenna hvata. Það versta sem við getum gert er að við sem stjórnvöld förum að velja einhverja eina tækni umfram aðra. Við megum það ekki, hins vegar eigum við að búa til hvata sem eru almennir fyrir þá tækni sem verður til og mun síðan á endanum rísa upp hér. Ég held að við eigum gríðarleg tækifæri í þessu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að til greina komi að setja einhvers konar frítímabil skatta fyrir grænar samgöngur þangað til við höfum náð 10%, 7% eða hvað það er, við gætum náð þverpólitískri samstöðu um það. Ég held að það mundi borga sig til lengri tíma. Þetta snýst um miklu stærri mál, snýst um það hvernig við ætlum í alvörunni að leggja okkar af mörkum til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda. Þarna eigum við tækifæri og það þýðir ekki að segja að við ætlum að minnka losun með hægri hendinni en vera svo að gera eitthvað allt annað með þeirri vinstri. Við þurfum að horfa á þetta í stóra samhenginu, virðulegi forseti. (Forseti hringir.)

Hér var talað um íblöndunarefni og þar eru til spennandi kostir sem eru innlendir. Og við ættum að skoða þá í þessu samhengi líka því að þá er verið að beisla mengun beinlínis til þess að búa til orkugjafa og íblöndunarefni.